Maður á sjötugsaldri, sem hefur verið ákærður fyrir að vera valdur að brunanum á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu í sumar, neitar sök. Þingfesting málsins var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.RÚV greinir frá.

Maðurinn var handtekinn í rússnenska sendiráðinu daginn sem húsið brann og hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan. Var maðurinn sagður hafa verið í annarlegu ástandi og hafi reynt að fela sig í sendiráðinu. Þurfti þrjá lögreglumenn til að fjarlægja manninn úr húsinu. Hér fyrir neðan má sjá myndband frá handtökunni í sumar.

Teymi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hefur rannsakað brunann í samstarfi við lögreglu og slökkvilið. Rök­studdur grunur leikur á að eldurinn hafi kviknað af manna­völdum.

Þrír létust í brunanum og hafa íbúar og aðstandendur hinna látnu lagt fram tíu bótakröfur vegna málsins. Er maðurinn ákærður fyrir manndráp og íkveikju og segist saklaus af báðum liðum.

Harmleikur sem fletti ofan af óréttlæti

Miklar umræður hafa skapast, bæði meðal almennings og yfirvalda, um aðbúnað og eldvarnir í húsinu áður en það brann. Í hús­inu bjó fjöldi er­lends verka­fólks og hef­ur vakið at­hygli að í hús­næðinu voru alls 73 með skráð lög­heim­ili. Húsið var forskalað timburhús og hafði ekki verið haldið almennilega við frá árinu 1961 að sögn nágranna. Húsið er skráð á starfsmannaleiguna HD verk ehf.

Nágrannar og aðrir íbúar í Vesturbænum höfðu margoft varað yfirvöld um aðstæður í kringum húsið. Bygg­ing­ar­full­trúa Reykja­vík­ur og Heil­brigðis­eft­ir­liti Reykja­vík­ur barst við­vör­un um bruna­hættu á Bræðr­ar­borg­ar­stíg 1 en ekkert var gert í málinu.