Sigrún Jóhannsdóttir lögmaður og fyrrverandi réttargæslumaður brotaþola, neitar að hafa reynt að hafa áhrif á framburð brotaþola í máli gegn nuddaranum Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni

Sigrún sat fyrir svörum verjanda í Héraðsdómi Reykjaness í dag eftir að hún reyndi að koma sér undan vitnaskyldu í gær.

Steinbergur Finnbogason, verjandi Jóhannesar, spurði Sigrúnu spjörunum úr, meðal annars hvort hún hefði smalað konum saman til að höfða hópsmálsókn gegn skjólstæðingi sínum undir fölsuðum Facebook reikningi.

„Ef þú ert að ýja á að ég hafi haft áhrif á þeirra framburð þá nei, ég gerði það ekki.“

Mannstu eftir því á þessum tíma þegar fyrsti brotaþoli steig fram að það hafi komið upp hugmynd hjá henni eða þér að auglýsa eftir fleiri brotaþolum gagnvart þessu manni undir fölsuðum Facebook account?

„Nei, ég kannast nú ekki við það.“ svaraði Sigrún. Verjandi Jóhannesar fiskaði eftir því í vitnaleiðslunni hvort hún hefði þjálfað eða reynt að samrýma frásagnir brotaþola en Sigrún vísaði því á bug.

„Ef þú ert að ýja á að ég hafi haft áhrif á þeirra framburð þá nei, ég gerði það ekki,“ svaraði Sigrún og benti á að verjandi hafi reynt að halda þessu fram í fyrra dómsmáli og ekki tekist að sanna mál sitt. Hún lét á sér skilja að hún væri ósátt við að látið væri liggja að því að hún hefði gerst sek um refsiverða háttsemi með framangreindum hætti.

Jóhannes Tryggvi hefur þegar verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir að nauðga fjórum konum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Auglýst eftir reynslusögum um nuddstofuna

Auglýsingarnar sem um ræðir frá konu að nafni Elín Sigurðardóttir og birtust á Beauty Tips. „Ef einhver hér hefur slæma, ekki góða reynslu af stofu sem heitir postura þá má endilega senda mér skilaboð sem allra fyrst,“ stóð í færslunni og í athugasemdum var búið að bæta við: „Þær sem hafa slæma reynslu þaðan vita um hvað málið snýst. Meira get ég ekki sagt.“

Aðspurð um auglýsinguna sagði Sigrún: „Það virðist einhver kona á einhverjum tímapunkti spurt í einhverri grúppu undir eigin nafni hvort einhver hefðu lent í einhverju misjöfnu hjá sakborningi. Það hefur aldrei verið rökstutt að þetta sé „fake Facebook account“ og ég kannast ekki við og get ekki svarað fyrir það.“

Tók hún fram að það væri einungis mat verjanda og sakbornings að Elín Sigurðardóttir væri einhvers konar dulnefni og það hefði enginn getað sýnt fram á það.

Telur brotaþola vilja „taka þátt í einhverri byltingu“

Steinbergur sagði í málflutningi sínum í dag að brotaþoli hefði komið til lögreglu með Sigrúnu réttargæslumanni, ein þrjátíu kvenna í „miðjum fjölmiðlastormi“ til að gera sitt til að byggja undir framburði annarra.

„Að sjálfsögðu þurfum að að taka tillit til þess að þarna sé kominn einhver aukinn og annar tilgangur en að ná fram refsingu og réttlæti fyrir sjálfan sig. Að það er þarna verið að ná fram réttlæti fyrir kynsystur sínar og að taka þátt í einhverri byltingu þar sem að, ja ... hópamyndun virðist vera með þeim hætti að fólk fer í þessum hópi að leggja fram kæru á þennan mann,“ sagði Steinbergur.

„Á þessum tíma þegar þessi framburður er að mótast, þá erum við í einhversskonar #metoo byltingu þar sem fólk er að koma fram.“

Telur lögmanninn vera í brotaþolaútgerð

Steinbergur telur Sigrúnu hafa viljandi reynt að ná í sem flesta brotaþola og reynt að þjálfa þá og vísar hann í viðtal Mbl.is við Sigrúnu frá árinu 2015.

„Þarna er komin einhver útgerð sem gengur út á að ná í sem flesta brotaþola. Í þessari grein bendir hún á að það þurfi að taka tillit til brotaþolans, sem er alveg rétt, en það þurfi líka að undirbúa þá undir skýrslutöku og það þurfi að passa upp á að það sé ekki beinlínis mótsagnir í framburði þeirra.  Sko. Þarna erum við komin með aðferðafræði sem er að mati verjanda óbjóðandi.“

Segir hann það ekki vera hlutverk lögmanns að laga framburð fólks.

„Á þessum tíma þegar þessi framburður er að mótast, þá erum við í einhversskonar #metoo byltingu þar sem fólk er að koma fram, sem er góðra gjalda vert, nema fyrir það að þá helgi tilgangurinn meðalið og er fólk að koma fram í einhverjum tilgangi að gefa framburði skýrslur og kærur með það í huga að byggja undir framburði annarra. Eins og virðist vera i þessu máli var þetta í mörgum þeirra fyrri.“

Steinbergur, verjandi Jóhannesar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Annar brotaþoli hafi viðurkennt aðkomu að auglýsingu

Þá vísaði Steinbergur til vitnisburðar brotaþola úr fyrra refsimáli gegn Jóhannesi en í því máli voru fjórir brotaþolar sem höfðu kært Jóhannes fyrir nauðgun.

„Það gerðist þá fyrir dómi, að brotaþoli sem var að því er virðist með Sigrúnu í því að vinna þetta mál allt frá 2015, viðurkenndi fyrir dómi að þær hafi verið að vasast með þessa auglýsingu og að þessi auglýsing hafi verið þannig að sá sem var admin á bak við þessa auglýsingu auglýsingu hafi sent öll svörin við henni á Sigrúnu," sagði verjandinn í málflutningi sínum í dag

„Enn þann dag í dag ætlar Sigrún að halda því fram að hún hafi reyndar lesið yfir einhverja auglýsingu en þetta sé að öðru leyti einhver misskilningur eða illkvitni af verjandanum að halda því fram að þarna hafi verið auglýst eftir brotaþolum í þessum málum gegn ákærða.“

Dagmar Ösp sækjandi.

Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, saksóknari hjá Héraðssaksóknara sem sækir málið, brást við þeim fullyrðingum verjandans að fyrrum réttargæslumaður hafi fundað með brotaþolum með það að markmiði að samræma framburði þeirra.

„Þetta er alger hugarburður verjanda og ekkert framkomið í málinu sem styður þetta á nokkurn hátt,“ sagði saksóknari um málflutning verjandans.

„Þetta er alger hugarburður verjanda og ekkert framkomið í málinu sem styður þetta á nokkurn hátt.“

Málið sem nú er flutt í héraðsdómi varðar fimmtu ákæruna um nauðgun á hendur Jóhannesi Tryggva en hann hefur þegar verið sakfelldur fyrir að nauðga fjórum konum.

Jóhannes gaf skýrslu gær og ætla að nýta sinn rétt til að tjá sig ekki um sakargiftir umfram það sem kemur fram í lögregluskýrslunni.

„Ég get sagt það með fullri vissu að ég kom ekki við brjóst eða kynfæri þessarar stúlku á óviðeigandi hátt,“ sagði hann.