Lögreglan virðist eiga erfitt með að komast yfir farsímagögn sakbornings í peningaþvættismáli þrátt fyrir að hafa fengið heimild til þess að afrita gögn úr síma hans. Ástæðan er að hann neitar að gefa upp pin-númer að símanum.

Þetta kemur fram í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, frá því á mánudag, sem úrskurðaði manninn í gæsluvarðhald til morgundagsins, föstudags. Síðan hefur Landsréttur staðfest úrskurðinn.

Maðurinn var handtekinn á Keflavíkurflugvelli þann tólfta febrúar, en við leit tollvarða á honum fundust samtals 13.871 evrur, sem jafngildir rúmum tveimur milljónum króna. Hann kvaðst eiga fjármunina sjálfur og sagðist hafa komið með þá til landsins þegar hann kom til landsins í nóvember í fyrra.

Samkvæmt úrskurðinum breyttist framburður mannsins nokkrum dögum síðar. Þá sagðist hann hafa komið með íslenskar krónur til landsins, sem hann hefði fengið á svörtum markaði erlendis, og síðan skipt þeim í evrur hérlendis.

Spurður út í fyrri framburðinn, að hann hefði komið með evrur til landsins, sagðist hann aldrei hafa sagt það.

Segja útskýrinagar mannsins ótrúverðugar

Fram kemur að daginn eftir handtökuna hafi hann neitað lögreglu um að afrita og rannsaka farsímann sinn. Í kjölfarið fékk lögregla dómsúrskurði um afléttingu bankaleyndar og heimild til afritunar og rannsóknar. Þrátt fyrir það hefur maðurinn neitað að gefa upp pinnið.

Lögreglan hefur þó komist yfir bankaupplýsingar mannsins en á rúmum mánuði, frá því í lok nóvember til byrjun janúar keupti hann tólf sinnum evrur, samtals 11.915 evrur fyrir samtals 1.859.880 íslenskar krónur í reiðufé. Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að hann hafi eytt 89 dögum á Íslandi síðustu 180 daga.

Að mati lögreglu eru útskýringar mannsins órúverðugar. Hann hefur verið spurður út í dvöl sína á Íslandi, en hann sagðist vera hér til að hitta frænda sinn og skoða landið. Fram kemur að maðurinn hafi ekki getað gefið upp heimilisfang frænda síns né í hvaða bæjarfélagi hann byggi í.

Í úrskurðinum segir að til rannsóknar hjá lögreglu séu uppruni fjármunanna, tengsl hans við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og erlendis, auk annarra atriða líkt tengsl við skipulagða brotastarfsemi hér á landi.