Dawid Kornacki, annar ákærðu í Shooters-málinu, segist iðrast mjög eftir umrætt kvöld. Fyrir dómi játaði hann sök að hluta, en neitaði að hafa reitt dyraverðinum hnefahögg og elt hann inn á skemmtistaðinn Shooters. Aðalmeðferð málsins fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. 

Líkamsárásin á skemmtistaðnum Shooters síðasta sumar vakti mikla athygli og eru tveir ákærðir vegna málsins, Dawid og Artur Pawel Wisocki, sem hefur sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá því í sumar. Skýrslutaka yfir mönnunum fór fram í héraðsdómi í morgun og sögðu bæði Artur og Dawid að dyraverðirnir hefðu haft fleyg í síðu sinni frá upphafi.

Sögðu báðir dyraverðina hafa horn í síðu sinni

Við skýrslutöku viðurkenndu bæði Dawid og Artur að þeir hefðu veitt dyravörðunum spörk og hnefahögg. Dawid neitaði þó að hafa veitt dyraverðinum högg, en viðurkenndi að hafa haldið honum svo hann kæmist ekki undan.

Saksóknari þráspurði Dawid hvort það hefði verið ætlunin að fara aftur á Shooters í þeim tilgangi að ráðast á dyraverðina en hann sagði það ekki hafa verið svo. 

Tók hann það fram að hann hefði ekki verið drukkinn og einungis fengið sér fáeina bjóra fyrr um kvöldið. Artur tók það fram í skýrslutöku að hann hefði verið ölvaður. Sagði Dawid hópinn einfaldlega hafa ætlað að athuga hvort þeir kæmust aftur inn á staðinn  eftir að hafa verið vísað út af honum fyrr um kvöldið. 

Upptaka af atvikinu var sýnd í héraðsdómi. Þar mátti sjá mennina snúa aftur á skemmtistaðinn í miklu offorsi og veitast að dyravörðunum. Var myndbandið sýnt við skýrslutöku Arturs, en sagðist Dawid ekki hafa neinu við það að bæta.

Að lokum spurði Bjarni Hauksson, verjandi Dawids, um aðstæður hans og sagðist hann iðrast mjög. Á hann fimm börn undir tólf ára aldri og er í vinnu. „Ég sé mjög mikið eftir þessu og langar að biðjast afsökunar.“