Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út í miðbæ Reykjavíkur þegar klukkan var tíu mínútur gengin í átta í gærkvöldi. Tilkynnt hafði verið um mann sem var kominn inn í íbúð þar en var ekki velkominn.

Þegar lögregla kom á staðinn var maðurinn sofandi í íbúðinni en hann hafði þegar valdið einhverju tjóni innandyra. Maðurinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem hann neitaði að segja til nafns. Hann var því vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar en talsverður erill var hjá þeim í nótt.

Eftir miðnætti í nótt barst lögreglu tilkynning um ofurölvi einstakling á veitingastað sem neitaði að yfirgefa staðinn. Lögreglan kom á staðinn og var aðilanum vísað á dyr en sá neitaði.

Lögregla flutti manninn á lögreglustöð en þegar þangað var komið neitaði viðkomandi einnig að yfirgefa lögreglustöðina og fara heim til sín þrátt fyrir að vera laus úr haldi lögreglu.

Var það mat lögreglu að ekki væri hægt að skilja viðkomandi eftir úti og endaði málið með því að hann var vistaður í fangageymslu þar til hann gæti sýslað með sína einkahagi.

Lögreglan var með aukinn viðbúnað í miðbænum í nótt líkt og fyrri nætur eftir stunguárásina í Bankastræti Club síðustu helgi og hótanirnar sem fylgdu í kjölfarið.

Ekki kom til mikilla átaka í miðbænum í nótt en lögreglan sinnti ýmsum öðrum verkefnum og er listinn hér að ofan alls ekki tæmandi.