Mikið var að gera hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld og í nótt. Í dag bók lögreglu kemur fram að 11 ökumenn hafi verið stöðvaðir víðs vegar um höfuðborgarsvæðið vegna gruns um akstur undir áhrifum annað hvort áfengis eða vímuefna.

Þá kemur fram í dagbók að farið var í göngueftirlit í miðbænum í gærkvöldi. Sérstaklega var fylgt á eftir stöðum sem farið hafði verið á helgina áður og athugasemdir gerðar þá. Segir í dagbók að ástandið hafi almennt verið gott og rekstraraðilar búin að ná tökum á þeim sóttvarnareglum sem nú eru í gildi.

Rýmdu veitingastað

Um hálf ellefu var þó tilkynnt um brot á sóttvarnareglum á veitingahúsi en þá voru 13 manns inni á staðnum og mikil ölvun. Segir í dagbók að nokkrir gesta hafi farið með leiðindi við lögreglu og að staðurinn hafi verið rýmdur.

Þá voru tveir menn handteknir í hverfi 104. Þeir eru grunaður um vörslu eða sölu fíkniefna og voru vistaðir fyrir rannsókn máls  í fangageymslu lögreglu.

Í Hafnarfirði var tilkynnt um þjófnað um níu í gærkvöldi. Þar var hvarfakút stolið undan nýlegri bifreið þar sem bifreiðinni var lagt í bifreiðastæði nóttina á undan.

Neitaði að bera grímu

Þá voru höfð afskipti af konu í verslun í Garðabæ rétt fyrir miðnætti vegna þess að konan vildi ekki nota andlitsgrímu og neitaði að yfirgefa verslun. Hún neitaði að gefa upp kennitölu eða nafn og gaf lögreglu upp rangt nafn. Konan sagðist vera með vottorð sem sýndi fram á að hún þyrfti ekki að bera grímu, en tekið er fram að hún hafi aldrei sýnt vottorðið.

Þá var tilkynnt um þjófnað í bíó í Kópavogi en þarf fór maður inn á lokað svæði og skemmdi áfengiskæli og reyndi að taka þaðan áfengi. Einnig var tilkynnt um þjófnað í verslun í Breiðholti.