Lögregla var kölluð til að aðstoða starfsmenn matvöruverslunar í Vesturbæ snemma í morgun þegar maður neitaði að bera grímu í búðinni. Eins og flestir vita er nú grímuskylda í öllum verslunum landsins, eftir tilmælum sóttvarnalæknis.
Atvikið varð um klukkan hálf 6 í morgun. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að maðurinn hafi neitað að bera grímu í versluninni. Hann hafi svo hent til hlutum í búðinni og hrint starfsmanni. Lögreglan handtók manninn en lét hann lausan að lokinni skýrslutöku.
Svipað atvik kom upp Í Kópavogi rétt fyrir klukkan eitt í dag. Lögreglu barst þá tilkynning um ölvaðan og æstan aðila í verslun sem neitaði að hlýða grímuskyldu. Lögreglan segist ekki gefa frekari upplýsingar um það mál að svo stöddu.
Loks segir lögregla að nokkur fjöldi tilkynninga um hugsanleg brot á sóttvörnum hafi borist í dag líkt og síðustu daga. Meint brotin snúa flest að því að verslanir séu ekki að hlýða fyrirmælum um hámarksfjölda í rými eða þá að grímuskyldu sé þar fylgt eftir.