Asa­dullah Sarwary er frá Afgan­istan. Hann kom til Ís­lands frá Grikk­landi í leit að vernd fyrir um sjö mánuðum á­samt tveimur sonum sínum, Mahdi Sarwary og Ali Akbar Sarwary, sem eru átta og tíu ára. Honum var birtur úr­skurður kæru­nefndar þann 18. febrúar síðastliðinn um um stað­festar á­kvarðanir Út­lendinga­stofnunar frá því 14. desember á síðasta ári um að stofnunin myndi ekki taka mál hans og drengjanna til efnis­legrar með­ferðar.

Samkvæmt því ætti að vísa þeim frá landinu, vegna þess að þeir hafa fengið, fyrir komu til Ís­lands, al­þjóð­lega vernd í Grikk­landi.

Asa­dullah var í Grikk­landi í tvö og hálft ár áður en hann kom til Ís­lands. Hann langaði ekki sækja um vernd þar en lögin í Grikk­landi kveða á um það að annað hvort sækirðu um vernd, eða ert vísað aftur burt eftir 20 daga. Hann hafði því engra annarra kosta völ en að sækja þar um vernd.

„Þegar við vorum komnir með vernd var okkur síðan sagt að við ættum rétt á að vera í sex mánuði flótta­manna­búðum Sam­einuðu þjóðanna í tjöldum. Eftir sex mánuði þurftum við að fara og sjá um okkur sjálf. Það var ekki hægt fyrir okkur að finna hús­næði eða vinnu,“ segir Asa­dullah í samtali við Fréttablaðið.

Hann segir að í eitt og hálft ár hafi þeir búið í tjaldi og hafi þurft að bíða í röð fyrir mat og læknis­að­stoð. Hann segir að honum hafi fljótt verið ljóst að hann þyrfti að fara.

„Það er engin fram­tíð fyrir börn. Það er enginn skóli. Það er von­laust,“ segir Asa­dullah.

Asadullah óskar þess að yfirvöld endurskoði mál hans og hann fái að dvelja hér með drengjunum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Vill fresta réttaráhrifum á meðan málið fer fyrir dómstóla

Staða mála hjá Asa­dullah í dag er sú að hann hefur sótt um vernd hér á landi en fengið neitun í tví­gang. Hann segir að ekki hafi verið tekið til­lit til þess að hann er hér með börn. Hann bíður þess nú að þeim verði öllum vísað úr landi.

„Það var ekki tekið til­lit til þess að ég er með börn og núna er ég með lög­mann sem er að skoða málið. Það er ekki lengur hjá Út­lendinga­stofnun,“ segir Asa­dullah.

Lög­maður Asa­dullah, Magnús D. Norð­dahl, hefur sent kröfu til kæru­nefndar út­lendinga­mála um að fresta réttar­á­hrifum í máli hans og drengjanna á meðan hann fer með mál þeirra fyrir dóm­stóla. Þar er þess meðal annars krafist að fram fari heild­stætt mat á að­stæðum fjöl­skyldunnar og að tekin verði til greina öll gögn sem sýni „með ó­yggjandi hætti að lífi hans verði stefnt í hættu verði honum gert að snúa aftur til Grikk­land“. Þá er einnig bent á að verði þeim vísað úr landi muni það reynast þeim erfitt að halda sam­bandi við Magnús, lög­mann sinn, og að það eitt kunni að skemma fyrir mála­rekstri þeirra.

Verði krafan sam­þykkt fær fjöl­skyldan að dvelja hér á landi á meðan málið er borið undir dóm­stóla. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá lög­manni Asa­dullah fellst þó kæru­nefnd afar sjaldan á kröfur um frestun réttar­á­hrifa. Honum hafði ekki borist svar frá nefndinni við lok síðustu viku og er því afar lík­legt er Asa­dulla, Mahdi og Ali verði vísað af landi brott, aftur til Grikk­lands.

Rauði krossinn ítrekað varað við bágum aðstæðum í Grikklandi

Rauði krossinn á Ís­landi hefur í­trekað varað við því að fólk sé sent aftur til Grikk­lands vegna bágra að­stæðna sem það er sent aftur í. Í um­sögn þeirra um frum­varp til breytinga á lögum um út­lendinga þar sem fjallað er sér­stak­lega um al­þjóð­lega vernd og brott­vísunar­til­skipun segir að þau Evrópu­ríki sem hafa þurft að bera þungan af straumi flótta­fólks, eins og Grikk­land og Ítalía, hafa ekki verið í stakk búin til þess að mæta og anna þessum fjölda.

Þar segir að fólk, þó því hafi verið veitt al­þjóð­leg vernd, sé oft bæði heimilis- og bjargar­laust og staða þeirra sé „sjaldnast á pari við hinn al­menna borgara“.

„Al­mennt séð er ég þeirrar skoðunar að ís­lensk stjórn­völd ættu ekki að endur­senda hælis­leit­endur til Grikk­lands, enda benda skýrslur ýmissa al­þjóð­legra stofnana til þess að staða hælis­leitanda þar sé afar bág­borin. Það er ó­skandi að ís­lensk stjórn­völd láti af þessum endur­sendingum til Grikk­lands sem allra fyrst enda ó­sæmandi af siðaðri þjóð að senda fólk sem á um sárt að binda í erfiðar og hættu­legar að­stæður, sér­stak­lega þegar um er að ræða börn,“ segir Magnús, lög­maður Asa­dullah, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Drengirnir eru í skóla á Íslandi og segir Asadullah að þeim líði vel hér.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Í lífshættu snúi þeir aftur til Grikklands

Á­stæða þess að Asa­dullah telur sig ekki geta snúið aftur til Grikk­lands eru ekki einungis slæmar að­stæður fólks þar. Heldur bíður hans þar einnig mágur hans sem hefur hótað honum líkam­legu of­beldi.

Þegar Asa­dullah og fyrr­verandi kona hans komu til Tyrk­lands, eftir að hafa flúið frá Afganistan, á­kváðu þau að skilja. Fjöl­skylda hennar varð þeim báðum mjög reið fyrir að taka þessa á­kvörðun. Asa­dullah segir að þau telji að með skilnaðinum hafi þau van­virt fjöl­skylduna. Hann segir að skilnaður sé mikið tabú í Afgan­istan.

Mágur hans heldur því fram að um leið og þau hafi komið til Evrópu hafi þau tekið upp evrópska siði og menningu og þess vegna hafi þau á­kveðið að skilja. Hann hefur gert Asa­dullah það ljóst að hann leiti hans og vilji leita hefnda. Asa­dullah er því mjög hræddur um að hann geri honum illt ef þeir þurfa að fara aftur til Grikk­lands og að drengirnir endi á því að eiga engan að.

Fyrr­verandi kona hans er í Þýska­landi og er í sömu stöðu og hann, að bíða þess að fá vernd. Hún hefur gift sig á ný og hefur sagt honum að hún hafi ekki á­huga á að taka við drengjunum.

Hann segir að ís­lensk stjórn­völd hafi spurt út í að­stæður þeirra og hann hafi greint þeim frá því að hún hafi ekki haft á­huga á að taka við þeim og sagði að það væri ekki inni í myndinni að þau myndu taka saman aftur, því hún er búin að gifta sig á ný.

„Við munum ekki taka saman aftur,“ segir Asa­dullah.

Asa­dullah segir að stefnan hafi á­vallt verið tekin á að drengirnir skyldu heim­sækja móður sína þegar þau væru öll komin með vernd, dvalar­leyfi og fastan sama­stað.

„Hún er alltaf vel­komin hingað að heim­sækja strákana,“ segir Asa­dullah.

Staðfestin á skilnaði Asadullah og fyrrverandi eiginkonu hans.
Staðfesting á því að Asadullah sé í lífshættu snúi hann aftur til Grikklands.

Drengirnir það mikilvægasta sem hann á

Spurður hvað hann vilji sjá gerast hér á Ís­landi segir hann að hann óski þess að stjórn­völd endurskoði mál hans. Sér­stak­lega út af börnunum hans.

„Þeir eru það mikil­vægasta sem ég á og það eru ef­laust margir sem koma hingað sem tala um að þau eigi við vanda­mál að stríða verði þeim vísað úr landi. En málið með mig er að ég get sannað það. Ég hef opin­ber skjöl til að sanna að mínar að­stæður eru sér­stak­lega erfiðar í Grikk­landi. Ef þetta snerist bara um mig þá gæti ég farið aftur til Grikk­lands, en ég get ekki farið út af börnunum mínum. Ef eitt­hvað kemur fyrir mig, hver á þá að sjá um börnin mín?“.

Skjölin sem Asa­dullah vísar til má sjá hér að ofan. Annað er frá Afgan­istan og er stað­festing á því að hann og kona hans eru skilin og hitt er frá Grikk­landi þar sem lög­reglan stað­festir að mágur hans hafi hótað honum of­beldi. Asa­dullah hefur sýnt ís­lenskum stjórn­völdum þessi skjöl en þau virðast ekki hafa tekið til­lit til þeirra þegar um­sókn hans og drengjanna var tekin til efnis­legrar með­ferðar.

„Í Grikk­landi er lög­reglunni alveg sama ef ein­hver er að hóta þér of­beldi. Ég sá fólk drepið fyrir framan mig í Grikklandi, stungið með hníf. Lög­reglan gerði ekkert. Það er ekki hægt að tryggja að ég verði 100 prósent öruggur þar,“ segir Asa­dullah.

Líður vel á Íslandi og langar að vinna

Asa­dullah býr núna, á­samt drengjunum sínum tveimur, í íbúð sem fé­lags­þjónustan út­vegaði þeim í Grafar­vogi. Drengirnir ganga í skóla í sama hverfi og líkar vel.

Hvernig líður strákunum vitandi að þeir þurfa kannski að fara aftur?

„Það var erfitt þegar við vorum á Grikk­landi. Þegar við komum hingað þá fórum við að hitta full­trúa frá UNICEF og ein þeirra spurði þá hvað þeim finnst gott við að vera á Ís­landi. Þeir svöruðu að það væri skemmti­legt að eiga rúm. Ef barn er á­nægt að eiga rúm, hvað þýðir það þá?“ segir Asa­dullah.

„Það var erfitt þegar við vorum á Grikk­landi. Þegar við komum hingað þá fórum við að hitta full­trúa frá UNICEF og ein þeirra spurði þá hvað þeim finnst gott við að vera á Ís­landi. Þeir svöruðu að það væri skemmti­legt að eiga rúm. Ef barn er á­nægt að eiga rúm, hvað þýðir það þá?“ segir Asa­dullah.

Asadullar er iðnaðar­maður og sinnti alls kyns byggingar­vinnu á meðan hann bjó í Afgan­istan. Hann er ekki með at­vinnu­leyfi á Ís­landi og hefur því ekkert getað unnið.

„En ég veit að það er alls­konar vinna á Ís­landi sem ég get sinnt. Ég vona að geti fengið vinnu hér og ég vil vinna. Daginn sem ég fékk dvalar­leyfi vildi ég strax fara að vinna,“ segir Asa­dullah sem segir að hann sakni þess mikið að vinna.

Hann segir að á meðan hann var í Grikk­landi hafi hann reynt mikið að finna sér vinnu, en enginn hafi viljað taka við honum.

„Ég sendi feril­skránna mína á fjöl­marga staði og heyrði aldrei aftur í neinum,“ segir Asa­dullah.

Hann segir að það sé annað vanda­mál við það að snúa aftur til Grikk­lands. Þar séu hrein­lega engin tæki­færi fyrir hann til að sjá fyrir fjöl­skyldu sinni.

„Ef við setjum til hliðar að ég eigi mér ó­vini í Grikk­landi og segjum þannig að ég væri ekki í hættu ef ég færi þangað. Þá verður að taka til greina að þar eru engin tæki­færi fyrir mig til að vinna. Hvernig á ég að sjá fyrir fjöl­skyldunni, borga leigu, kaupa mat og allt annað?“

Hann segir að eins og staðan er í dag sé honum alveg sama hvert starfið er. Hann vilji bara vinna.

„Fyrir mig, og í Afgan­istan, er versta starfið að þrífa klósett. Okkar lifi­brauð eru dýr og bú­skapur. Ég vann við að vefa trefla í Afgan­istan. Sex­tán klukku­tíma á dag, og það var erfitt. Ég er ekki manneskja sem vill ekki vinna og það er erfiðara að fá vinnu þegar maður er ekki að vinna,“ segir Asa­dullah.

Gott að finna fyrir samstöðu

Asa­dullah segir að það sé alltaf gott að finna fyrir stuðningi Ís­lendinga og sama hversu lítið það er þá skipti allt máli, sama hvort það er með því að skrifa undir undir­skriftalista eða sýna sam­stöðu.

„Ef ég væri einn myndi ég bara fara til Frakk­lands, eða hvert sem er, ég gæti sofið undir brúm eða ein­hvers staðar. En ég er ekki einn. Ég er með tvö börn og þeir skilja ekki aðstæður. Þeir biðja um vatn, og ég veiti þeim vatn. Þeir segja að þeir séu svangir og ég verð að finna mat handa þeim. Þeim er kalt og þá verð ég að veita þeim hita og húsa­skjól. Þeir skilja ekki að­stæðurnar og mér finnst vont að sjá börnin mín þjást. Það er það erfiðasta. Ég myndi fara til Grikk­lands og færa mig á milli staða ef ég væri einn. En ég get það ekki með þeim. Ég vona að Ís­lendingar skilji að­stæður mínar, hefji upp raust sína, og sýni mér og drengjunum sam­stöðu,“ segir Asa­dullah og leggur fram eina loka­spurningu:

„Afgan­istan er heima­land mitt og það er enginn að segja mér að ég geti ekki farið þangað. En ég á ekkert heimili þar og það er ekki öruggt þar. Það er stríð og engin fram­tíð fyrir börnin mín. Fólk er að hóta mér þar. Þannig ég get ekki farið þangað og ég get heldur ekki farið til Grikk­lands. Það er engin vernd þar fyrir mig eða börnin mín. Þannig ég spyr: Hvert á ég að fara?“