Ahmad flúði heima­land sitt Íran vegna pólitískra á­stæðna og kom til Ís­lands í októ­ber 2020 frá Grikk­landi þar sem hann er með al­þjóð­lega vernd. Hann er með 15 ára reynslu í hönnunar­geiranum og í Íran rak hann sína eigin hönnunar- og fram­leiðslu­stofu sem hannaði meðal annars nafn­spjöld og bæklinga fyrir fyrir­tæki.

„Ég fór frá Íran út af vanda­málum í landinu í mínu og fór fyrst til Tyrk­lands, síðan komst ég loks til Grikk­lands með báti. Í Grikk­landi bjó ég á eyjunni Les­bos í Moria flótta­manna­búðunum. Á­standið þar var ekki gott, ég bjó í tjaldi og átti mjög erfitt. Eftir að ég hafði verið á Les­bos í tíu mánuði þá var ég fluttur til Aþenu. Ég beið í næstum 18 mánuði eftir að fá gögnin mín, dvalar­leyfi, per­sónu­skil­ríki og ferða­skil­ríki, svo gat ég loks farið til Ís­lands,“ segir Ahmad.

Í­þrótta­meiðsl á fót­bolta­æfingu

Fyrstu mánuðina bjó hann í flótta­manna­búðum í Kefla­vík en í byrjun þessa árs var hann færður til Reykja­víkur. Það var svo í janúar 2021 að Ahmad fékk boð frá fé­lags­þjónustunni um að mæta á fót­bolta­æfingu hjá Þrótti. Ahmad fór á nokkrar æfingar sem gengu vel og kveðst hann hafa mjög gaman af fót­bolta. Á æfingu sem hann fór á þann 7. febrúar lenti Ahmad hins vegar í ó­happi og slasaðist.

„Ég var að hlaupa á eftir boltanum og ég veit ekki hvað gerðist en ég féll niður. Ég sagði þjálfaranum frá þessu því ég hef reynslu af fót­bolta frá Íran og ég sagði honum hvað hefði gerst og að ég væri meiddur á vinstra hné. Þjálfarinn sagði mér ‚Þú getur sett kæli­poka á þetta og þá verður þetta í fínu lagi‘. Ég sagði þjálfaranum að þetta væru sennilega í­þrótta­meiðsl eins og eru al­geng hjá fót­bolta­mönnum en hann veitti því enga at­hygli. Ég fór og skipti um föt og svo þegar ég gekk út úr æfinga­húsinu þá hrundi ég niður,“ segir Ahmad.

Hann segir tvær ís­lenskar konur hafa komið sér til hjálpar og hringt á sjúkra­bíl sem fór með hann á bráða­mót­töku. Á spítalanum fékk Ahmad ekki mikla að­stoð, hann var skoðaður af tveimur læknum, látinn hafa hækjur og út­skrifaður á innan við klukku­tíma en engin röntgen­mynd tekin af fætinum og honum ekki gefin nein verkja­lyf eða neinar sér­stakar leið­beiningar um hvernig hann ætti að bera sig.

Þau sögðu að mér yrði út­hýst úr úr­ræðinu og fram­færslan mín yrði stöðvuð. Ég fór til Út­lendinga­stofnunar en að lokum tóku þau allt frá mér, heimilið og peninga­kortið mitt. Og þau veittu mér ekki neina læknis­þjónustu þrátt fyrir að þau hafi gert sér grein fyrir því að ég þyrfti á að­gerð að halda

Gat ekki labbað í 2-3 vikur

„Eftir að ég kom heim gat ég ekki labbað í tvær til þrjár vikur. Ég gat ekki farið auð­veld­lega á klósettið og ég átti erfitt með að baða mig. Ég hringdi nokkrum sinnum í fé­lags­þjónustuna og bað þau um að fá að hitta lækni en mér var sagt að ég þyrfti að bíða. Eftir einn eða tvo mánuði fékk ég loks tíma og þegar ég hitti lækninn sagði hann mér að ég þyrfti að fara í segulóm­skoðun,“ segir Ahmad.

Í niður­stöðum segulóm­skoðunar sem Ahmad fór í í lok apríl 2021 kemur fram að fremra kross­bandið á vinstra hné hans er slitið og að rifa sé í aftur­horni medi­al meniscus (bjúg­fleti), hvoru tveggja al­geng meiðsl hjá fót­bolta­mönnum. Ahmad segist hafa farið með niður­stöðurnar til heimilis­læknis sem hafi tjáð honum að hann þyrfti að gangast undir að­gerð vegna meiðslanna og lét hann fá nafn og upp­lýsingar hjá sér­fræði­lækni. Ahmad lét Út­lendinga­stofnun vita að hann þyrfti að gangast undir að­gerð en nokkrum dögum síðar fékk hann sím­tal frá fé­lags­ráð­gjafanum sínum sem tjáði honum að hann myndi ekki fá neina frekari læknis­þjónustu vegna þess að búið væri að synja honum um hæli og vísa ætti honum úr landi.

„Þau sögðu að mér yrði út­hýst úr úr­ræðinu og fram­færslan mín yrði stöðvuð. Ég fór til Út­lendinga­stofnunar en að lokum tóku þau allt frá mér, heimilið og peninga­kortið mitt. Og þau veittu mér ekki neina læknis­þjónustu þrátt fyrir að þau hafi gert sér grein fyrir því að ég þyrfti á að­gerð að halda því heimilis­læknirinn minn sagði að ég þyrfti að fara í að­gerð,“ segir Ahmad.

Eins og áður sagði neitaði Ahmad að gangast undir sýnatöku þegar senda átti hann til Grikk­lands og var honum út­hýst úr úr­ræði Út­lendinga­stofnunar og fram­færsla hans stöðvuð 17. maí. Undan­farnar tvær vikur hefur hann flakkað á milli kunningja sem hafa reddað honum gistingu í nokkrar nætur í senn en eins og er hefur hann engan sama­stað.

„Ég vil ekki segja of mikið um Grikk­land því allir vita hvað er að gerast þar. Í Grikk­landi er engin von og þar eru engin mann­réttindi. Ég vil bara segja að ég er svo þakk­látur Ís­lendingum og líka kennurunum mínum, þeir hjálpa mér mikið,“ segir Ahmad.

Þegar ég kom til Ís­lands þá voru Ís­lendingar svo vin­gjarn­legir við mig, þeir gáfu mér von og ég vildi endur­byggja lífið sem ég var búinn að glata. Núna er ég að reyna að læra ís­lensku og ég vil vera nyt­sam­leg manneskja.

Fréttablaðið/Valli

Vill vera nýtur þjóð­fé­lags­þegn

Ahmad segist upp­lifa mikla verki vegna meiðslanna sem geri honum erfitt með svefn. Hann á líka erfitt með gang og ef hann ein­beitir sér ekki að því að stjórna hnénu þá fellur hann niður. Hann segist ekki geta hlaupið og ekki unnið erfiðis­vinnu lengur og heimilis­læknirinn tjáði honum að á­stand hans myndi versna dag frá degi ef ekkert yrði gert.

„Ég ætti að notast við staf þegar ég geng en vegna þess að ég er hælis­leitandi og lít ekki út eins og Ís­lendingar þá lítur fólk ekki já­kvæðum augum á mig þegar ég fer út. Þess vegna finnst mér ekki gott að nota stafinn. En þegar ég er að ganga og huga ekki að hnénu mínu þá dett ég sam­stundis niður,“ segir Ahmad.

Hann heldur þó enn í vonina um að hann fái að dveljast á Ís­landi og segist vera þakk­látur fyrir þær mót­tökur sem hann hefur fengið. Draumur hans er að geta stofnað sína eigin hönnunarstofu hér á landi verði honum leyft að dvelja hér á­fram.

„Þegar ég kom til Ís­lands þá voru Ís­lendingar svo vin­gjarn­legir við mig, þeir gáfu mér von og ég vildi endur­byggja lífið sem ég var búinn að glata. Núna er ég að reyna að læra ís­lensku og ég vil vera nyt­sam­leg manneskja. Og vegna þess að ég fékk von frá fólkinu þá bjóst ég við því að fá já­kvæða niður­stöðu frá Út­lendinga­stofnun en akkúrat núna þá get ég ekki farið aftur til Grikk­lands því þar hef ég enga von,“ segir Ahmad.

Hann bætir því við að ein af ást­ríðum hans í lífinu sé tón­list og hann hafi verið í tón­listar­námi á vegum fé­lags­þjónustunnar sem hann hafi haft mjög gaman af.

„Ég er mjög fær á gítar og fiðlu og er núna að læra á píanó. Í síðustu viku lærði ég Hotel Cali­fornia,“ segir Ahmad og hlær.