Tveir starfsmenn hjá matvælafyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu hafa greinst með COVID-19. Er um að ræða fyrirtæki sem flytur inn og dreifir matvælum.

Fréttablaðið leitaði svara hjá embætti sóttvarnarlæknis og almannavörnum um hvaða fyrirtæki væri að ræða, þar sem umræddar upplýsingar eigi erindi til almennings, en án árangurs.

„Almannavarnir safna ekki upplýsingum um einstök smit en þessar upplýsingar ættu að liggja fyrir hjá sóttvarnarlækni,“ sagði Jóhann K. Jóhannsson, upplýsingafulltrúi almannavarna, í samtali við Fréttablaðið.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnarlæknis, segir hins vegar að nafn fyrirtækisins verði ekki gefið upp nema að frumkvæði stjórnenda þess.

Tvö smit í tíu manna innpökkunardeild

Forstjóri hins ónefnda fyrirtækisins segir í samtali við RÚV að smitið hafi komið upp í byrjun vikunnar í tíu manna deild þar sem vörum sé pakkað og þær merktar. Annar starfsmaður í sömu deild hafi greinst með smit í kjölfarið.

Að sögn Kamillu tengist annar einstaklingurinn hópsmiti sem hafi verið greint frá.

„Samstarfsmenn eru í sóttkví og hefur verið eða verður boðið í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu. Við erum að reyna að kortleggja útbreiðsluna sem nánast,“ segir hún við Fréttablaðið.

Forstjórinn segir í samtali við RÚV að ekki sé hætta á að dropasmit hafi verið á umbúðum matvæla sem hafi farið frá fyrirtækinu.