„Þetta er eiginlega alveg galið,“ segir Elín María Óladóttir, móðir nítján ára drengs sem fæddist með skarð í vör og gómi, vanvöxt í efri kjálka og ofvöxt í neðri kjálka og Sjúkratryggingar neita að styðja áfram til að ljúka meðferð á.

Sonur Elínar, Sævar Ingi Örlygsson, hefur vegna þessa meðfædda galla þurft að undirgangast meðferð sem byrjaði með skoðunum er hann var aðeins þriggja ára og leiddi til flókinna aðgerða sem hófust er drengurinn var sex ára.

Í samantekt sérfræðings í tannréttingum sem annast hefur Sævar Inga frá upphafi kemur fram að þegar samantektin var skrifuð fyrir ári síðan hafði drengurinn komið í alls 90 til 100 heimsóknir til hans.

Um 10 til 15 heimsóknir séu eftir til að ljúka meðferðinni en að Sjúkratryggingar Íslands hafi misst þolinmæðina gagnvart stuðningi við verkefnið sem útheimt hafi rúmlega tvöfaldan fjölda heimsókna miðað við venjubundna tannréttingameðferð.

„Upp á síðkastið virðast Sjúkratryggingar vera með væntingar um að hægt sé að ljúka slíkum verkum á skemmri tíma með minni kostnaði og setja bæði tímamörk og upphæðarmörk á lok verksins. Það er nýlunda í samskiptum við stofnunina í málefnum skarðabarna,“ undir­strikar sérfræðingurinn í samantektinni. Hún fylgdi kæru Elínar til Úrskurðarnefndar velferðarmála.

Kærði hún ákvörðun Sjúkratrygginga um að vísa frá beiðni um framlengda greiðsluþátttöku.

Þetta var bara korter í áramót og hann náði bara að fara í þrjú skipti og náði ekki að klára

Úrskurðarnefndin felldi synjun Sjúkratrygginga úr gildi þann 10. nóvember síðastliðinn og lagði fyrir stofnunina að taka mál Sævars aftur til meðferðar. Brugðust Sjúkratryggingar við því mánuði síðar með því að tilkynna drengnum að greiðslur til hans yrðu framlengdar út árið 2021, eða í aðeins réttar þrjár vikur til viðbótar, og þvertaka fyrir greiðslur eftir þann tíma.

„Þetta var bara korter í áramót og hann náði bara að fara í þrjú skipti og náði ekki að klára,“ segir Elín. Tannréttingasérfræðingurinn hafi fyrir nokkru sótt um framlengdar greiðslur vegna þessa fyrir Sævar Inga. Um tvö hundruð þúsund krónur kosti að ljúka meðferðinni.

„En Sjúkratryggingar hafa ekki svarað því. Fyrir flest börn sem fæðast með svona alskarð í gómi tekur meðferðin langan tíma en Sjúkratryggingar hafa ekki þolinmæði fyrir það,“ segir Elín María sem kveðst hafa skrifað Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra fyrir jólin. Ráðherra hafi sagst mundu láta starfsfólk sitt skoða málið.

„Síðan hef ég ekkert heyrt.“