Heilbrigðisyfirvöld í Nýja-Sjálandi hafa ákveðið að fara fyrir dómstóla vegna ákvörðunar foreldra að leyfa ekki hjartaskurðaðgerð á fjögurra mánaða gömlum syni þeirra ef notað er við hana blóð sem inniheldur bóluefni.

Þetta kemur fram á fréttavef The Guardian en læknar telja að drengurinn muni þurfa að gangast undir aðgerð vegna veikinda sinna helst strax en foreldrarnir eru að eigin sögn „með miklar áhyggjur af því blóði sem læknar munu nota.“

Yfirvöld fara fram á ákvörðunarvald

Foreldrarnir ræddu aðgerðina í viðtali við samtök sem standa gegn bólusetningum.

„Við viljum ekki blóð sem hefur verið mengað með bóluefnum“ sagði faðirinn „það er algjört grundvallaratriði – við erum ekki á móti neinu öðru sem læknarnir vilja framkvæma í aðgerðinni.“

Heilbrigðisyfirvöld sendu inn formlega umsókn um að ákvörðunarvald í máli drengsins verði fært frá foreldrum hans til yfirvalda svo hægt sé að nota það blóð sem þarf til að framkvæma aðgerðina.

Sérfræðingar hafa bent á að bóluefnin sem notuð voru gegn Covid-19 verndi gegn alvarlegum veikindum af völdum sjúkdómsins og að notkun á þeim sé raunverulega örugg þar sem milljónir manna hafi þegið þau án aukaverkana.

Mótmælendur koma saman í Nýja-Sjálandi gegn aðgerðum ríkisstjórnar Jacindu Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Mynd/getty

Ekki hægt að tryggja óbólusett blóð

Blóðbanki Nýja-Sjálands, NZ Blood, hefur bent á að bóluefnið brotni niður skömmu eftir að því er sprautað inn í kerfi líkamans. Stofnunin hefur einnig bent á að blóð sé almennt ekki flokkað eftir því hvort það hafi fengið bóluefni eða ekki og því ómögulegt að segja til um hvaða blóð væri úr aðilum sem hefði fengið bóluefni.

Sue Grey Lögfræðingur foreldranna hefur gagnrýnt þá ákvörðun ríkisins að ekki sé hægt að tryggja að blóð komi frá aðilum sem ekki hafa verið bólusettir. „Þar sem skjólstæðingar mínir hafa verið stimplaðir sem samsæriskenningasmiðir virðist staða lækna og yfirvalda vera sú að það megi hundsa allt sem þau segja,“ sagði hún í samtali við fjölmiðla en hún telur að hægt sé að koma til móts við foreldrana í málinu.

Josephine Johnston, prófessor í lífsiðfræði við Háskólann í Otago sagði við fréttastofuna RNZ að málið væri sérstaklega erfitt þar sem allir aðilar í málinu bæru hag barnsins fyrir brjósti en um grundvallar ágreining væri að ræða.

„Foreldrar hafa skiljanlega mikið að segja um heilbrigði barna sinna og þá þjónustu sem þau fá. En það eru vissulega takmörk fyrir því hvað foreldrar geta ákveðið og hér snýst þetta því miður um líf og dauða,“ sagði Johnstone.