Hárgreiðslustofur víðast hvar utan höfuðborgarsvæðisins munu ekki taka við gestum af svæðinu næstu vikur á meðan hertar samkomutakmarkanir eru í gildi á svæðinu og hárgreiðslustofur þar lokaðar.
Fréttablaðið hafði samband við hárgreiðslustofur á Akranesi, Hveragerði, Reykjanesbæ, Grindavík og á Selfossi í morgun. Allar höfðu þær tekið ákvörðun um að klippa ekki kolla íbúa höfuðborgarsvæðisins á meðan samkomutakmarkanir gilda þar.
Ein af þessum stofum er Anna hárgreiðslustofa á Selfossi. Í tilkynningu á Facebook síðu stofunnar segist stofan með þessu vilja sýna samstöðu og takmarka flakk á milli landshluta
„Við þjónustum auðvitað fólk af höfuðborgarsvæðinu og erlendis frá. Fólk er allsstaðar að koma,“ segir Gunnhildur Katrín Hjaltadóttir, eigandi hárgreiðslustofunnar í samtali við Fréttablaðið aðspurð út í það hvort þessara takmarkana sé þörf.
„Maður þarf að sýna samstöðu, ekki spurning. Það væri náttúrulega ekki rétt að taka á móti fólki sem er að mæta þaðan bara til þess að fá klippingu,“ segir Gunnhildur. „En við biðjum bara fólk að vera rólegt, svona rétt á meðan, svo þetta gangi upp.“
Hún segir stofuna vera með bókunarkerfi svo auðvelt sé að sjá hverjir eru frá Reykjavík og hverjir ekki. „Svo bara treystum við bara fólki og það væri auðvitað mjög vitlaust ef einhver ætlar að drífa sig á Selfoss í klippingu. Við verðum bara að sýna samfélagslega ábyrgð og auðvitað vonum við að fólk geri það.“
Posted by Anna Hárstofa on Tuesday, 6 October 2020