Neil Young hefur krafist þess að tónlist hans verði fjarlægð af streymisveitunni Spotify vegna ósættis við misvísandi upplýsingar varðandi bóluefni sem birst hafa í hlaðvarpsþáttum Joe Rogans. Haft er eftir rokkaranum að „Þeir geta fengið Rogan eða Young. Ekki báða.“
Í opnu bréfi sem var birt á vefsíðu Young en síðar tekið niður skrifar hann:
„Ég er að gera þetta vegna þess að Spotify eru að dreifa fölsuðum upplýsingum um bóluefni – sem geta mögulega valdið dauða þeirra sem trúa þessum misvísandi upplýsingum. Vinsamlegast gerið eitthvað í þessu samstundis í dag og upplýsið mig um tímaáætlunina.“
Neil Young tók sérstaklega fram að hann beinir spjótum sínum að þættinum The Joe Rogan Experience sem er vinsælasta hlaðvarpið á Spotify sem stendur og eitt það vinsælasta í heimi. Joe Rogan gerði tímamótasamning við Spotify árið 2020 upp á 100 milljónir Bandaríkjadala sem veitti streymisveitunni einkarétt á hlaðvarpi hans.
„Spotify ber ábyrgð á því að berjast gegn dreifingu misvísandi upplýsinga á sínum miðli, þrátt fyrir að fyrirtækið hafi enn ekki komið sér upp stefnu um slíkt. Ég vil að þú tilkynnir Spotify samstundis Í DAG að ég vil láta fjarlægja alla tónlistina mína af vettvangi þeirra ... Þeir geta fengið Rogan eða Young. Ekki báða,“ segir í bréfi Neil Young.
Bréfið var stílað á umboðsmann hans Frank Gironda og Tom Corson, meðstjórnanda og framkvæmdastjóra rekstrar Warner Records, útgefanda Young.
Gironda staðfesti að bréfið væri frá Young í samtali við The Daily Beast. „Þetta er eitthvað sem skiptir Neil miklu máli. Hann er í miklu uppnámi ... við erum að reyna að finna út úr þessu núna,“ sagði hann.
Joe Rogan hefur ítrekað verið gagnrýndur fyrir að dreifa misvísandi upplýsingum í þáttum sínum. Í síðasta mánuði skrifuðu til að mynda 270 læknar, vísindamenn og heilbrigðisstarfsfólk undir opið bréf þar sem krafist var þess að Spotify komi sér upp stefnu til að berjast gegn misvísandi upplýsingum og falsfréttum og var það sérstaklega vísað í hlaðvarp Joe Rogans.