Neil Young hefur krafist þess að tón­list hans verði fjar­lægð af streymis­veitunni Spoti­fy vegna ó­sættis við mis­vísandi upp­lýsingar varðandi bólu­efni sem birst hafa í hlað­varps­þáttum Joe Rogans. Haft er eftir rokkaranum að „Þeir geta fengið Rogan eða Young. Ekki báða.“

Í opnu bréfi sem var birt á vef­síðu Young en síðar tekið niður skrifar hann:

„Ég er að gera þetta vegna þess að Spoti­fy eru að dreifa fölsuðum upp­lýsingum um bólu­efni – sem geta mögu­lega valdið dauða þeirra sem trúa þessum mis­vísandi upp­lýsingum. Vin­sam­legast gerið eitt­hvað í þessu sam­stundis í dag og upp­lýsið mig um tíma­á­ætlunina.“

Neil Young tók sér­stak­lega fram að hann beinir spjótum sínum að þættinum The Joe Rogan Experience sem er vin­sælasta hlað­varpið á Spoti­fy sem stendur og eitt það vin­sælasta í heimi. Joe Rogan gerði tíma­móta­samning við Spoti­fy árið 2020 upp á 100 milljónir Banda­ríkja­dala sem veitti streymis­veitunni einka­rétt á hlað­varpi hans.

„Spoti­fy ber á­byrgð á því að berjast gegn dreifingu mis­vísandi upp­lýsinga á sínum miðli, þrátt fyrir að fyrir­tækið hafi enn ekki komið sér upp stefnu um slíkt. Ég vil að þú til­kynnir Spoti­fy sam­stundis Í DAG að ég vil láta fjar­lægja alla tón­listina mína af vett­vangi þeirra ... Þeir geta fengið Rogan eða Young. Ekki báða,“ segir í bréfi Neil Young.

Bréfið var stílað á um­boðs­mann hans Frank Gironda og Tom Cor­son, með­stjórnanda og fram­kvæmda­stjóra rekstrar Warner Records, út­gefanda Young.

Gironda stað­festi að bréfið væri frá Young í sam­tali við The Daily Beast. „Þetta er eitt­hvað sem skiptir Neil miklu máli. Hann er í miklu upp­námi ... við erum að reyna að finna út úr þessu núna,“ sagði hann.

Joe Rogan hefur í­trekað verið gagn­rýndur fyrir að dreifa mis­vísandi upp­lýsingum í þáttum sínum. Í síðasta mánuði skrifuðu til að mynda 270 læknar, vísinda­menn og heil­brigðis­starfs­fólk undir opið bréf þar sem krafist var þess að Spoti­fy komi sér upp stefnu til að berjast gegn mis­vísandi upp­lýsingum og fals­fréttum og var það sér­stak­lega vísað í hlað­varp Joe Rogans.