Nýtt lög­gjafar­þing, 152. þing, kemur saman þriðju­daginn 23. nóvember 2021 kl. 13.30.

Í til­kynningu frá Al­þingi kemur fram að til þess að fá að­gang að þing­setningu þurfa allir, bæði fjölmiðlafólk og gestir þingsetningarinnar, að fara í hraðpróf og skila neikvæðri niðurstöðu. Í svari skrifstofu Alþingis við fyrirspurn Fréttablaðsins um málið kemur fram að þetta hafi verið ákveðið á fundi viðbragðsteymis skrifstofu Alþingis.

Fjölmiðlafólki verður einnig skylt að bera grímu við athöfnina.

Þing hefur ekki komið saman í 136 daga, eða síðan 6. júlí þegar því var slitið fyrir þing­kosningarnar þann 25. septem­ber.

Örfáir gestir

Í til­kynningu frá Al­þingi kemur fram að vegna kórónu­veirufar­aldursins verður að­eins ör­fáum gestum boðið til þing­setningarinnar að þessu sinni.

Séra Svavar Al­freð Jóns­son, sóknar­prestur í Akur­eyrar­kirkju, predikar og séra Sveinn Val­geirs­son, sóknar­prestur í Dóm­kirkjunni, þjónar fyrir altari á­samt biskupi Ís­lands, frú Agnesi M. Sigurðar­dóttur. Kári Þor­mar, organ­isti Dóm­kirkjunnar, leikur á orgel og Kam­mer­kór Dóm­kirkjunnar syngur við at­höfnina.

Að guðs­þjónustu lokinni ganga for­seti Ís­lands, biskup Ís­lands, for­seti Al­þingis, ráð­herrar, al­þingis­menn og aðrir gestir til þing­hússins. Söng­konur úr Domus vox syngja við þing­setninguna, undir stjórn Margrétar J. Pálma­dóttur.

For­seti Ís­lands, Guðni Th. Jóhannes­son, setur Al­þingi, 152. lög­gjafar­þing og starfs­aldurs­for­seti Al­þingis, Þor­gerður Katrín Gunnars­dóttir, býður al­þingis­menn og ráð­herra vel­komna og minnist látins fyrr­verandi þing­manns og látins fyrr­verandi ráð­herra.

Þá verður kosin kjör­bréfa­nefnd. Þing­setningar­fundi verður síðan frestað.

Hljóð­út­sending verður frá messu og sjón­varps­út­sending frá þing­setningar­fundi á sjón­varps­rás og vef Al­þingis. Sjón­varps­út­sending verður frá þing­setningar­fundi á RÚV. Einnig verður út­varps­út­sending á Rás 1 frá messu og þing­setningu.