Nýtt löggjafarþing, 152. þing, kemur saman þriðjudaginn 23. nóvember 2021 kl. 13.30.
Í tilkynningu frá Alþingi kemur fram að til þess að fá aðgang að þingsetningu þurfa allir, bæði fjölmiðlafólk og gestir þingsetningarinnar, að fara í hraðpróf og skila neikvæðri niðurstöðu. Í svari skrifstofu Alþingis við fyrirspurn Fréttablaðsins um málið kemur fram að þetta hafi verið ákveðið á fundi viðbragðsteymis skrifstofu Alþingis.
Fjölmiðlafólki verður einnig skylt að bera grímu við athöfnina.
Þing hefur ekki komið saman í 136 daga, eða síðan 6. júlí þegar því var slitið fyrir þingkosningarnar þann 25. september.
Örfáir gestir
Í tilkynningu frá Alþingi kemur fram að vegna kórónuveirufaraldursins verður aðeins örfáum gestum boðið til þingsetningarinnar að þessu sinni.
Séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, predikar og séra Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur í Dómkirkjunni, þjónar fyrir altari ásamt biskupi Íslands, frú Agnesi M. Sigurðardóttur. Kári Þormar, organisti Dómkirkjunnar, leikur á orgel og Kammerkór Dómkirkjunnar syngur við athöfnina.
Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins. Söngkonur úr Domus vox syngja við þingsetninguna, undir stjórn Margrétar J. Pálmadóttur.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setur Alþingi, 152. löggjafarþing og starfsaldursforseti Alþingis, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, býður alþingismenn og ráðherra velkomna og minnist látins fyrrverandi þingmanns og látins fyrrverandi ráðherra.
Þá verður kosin kjörbréfanefnd. Þingsetningarfundi verður síðan frestað.
Hljóðútsending verður frá messu og sjónvarpsútsending frá þingsetningarfundi á sjónvarpsrás og vef Alþingis. Sjónvarpsútsending verður frá þingsetningarfundi á RÚV. Einnig verður útvarpsútsending á Rás 1 frá messu og þingsetningu.