Utanríkisráðherra Frakka vill að Bretar taki ábyrgð á því ástandi sem upp er komið í sambandi við Brexit. Svar Frakka við frestun Breta á útgöngu úr Evrópusambandinu sé nei, að svo stöddu. Ráðherrann segir jafnframt að nýjar lausnir Breta í Brexit séu allar í orði en ekki á borði. „Við getum ekki gengið í gegnum þetta á þriggja mánaða fresti,“ sagði ráðherrann við fjölmiðla í gær. Bretar hafa tvisvar þurft að fresta útgöngu úr sambandinu.

Hart er deilt í Bretlandi um næstu skref í Brexit. Forsætisráðherrann, Boris Johnson, segist ætla út úr sambandinu þann 31. október, með eða án samnings. Hann hefur, þrátt fyrir stutta ráðherratíð, þegar misst þingmeirihluta og rekið 21 þingmann úr Íhaldsflokki sínum fyrir að greiða atkvæði með lögum sem koma í veg fyrir samningslausa útgöngu Breta.

Amber Rudd, ráðherra verkalýðsmála, hætti í ríkisstjórn Johnsons um helgina. Hún sagði engar formlegar viðræður í gangi við ESB.