Carl Bern­stein, einn þekktasti blaða­maður Banda­ríkjanna, sem ljóstraði upp um Wa­tergate-málið, segist hafa heimildir fyrir því að 21 öldunga­deildar­þing­maður Repúblikana hafi lýst yfir ó­á­nægju með Donald Trump Banda­ríkja­for­seta. Bern­stein greindi frá málinu á Twitter síðu sinni en hann hefur oft gagn­rýnt Trump og hans störf.

Líkt og áður hefur komið fram neitar Trump að játa sig sigraðan eftir for­seta­kosningarnar fóru fram í Banda­ríkjunum þann 3. nóvember, þar sem Joe Biden fór með sigur af hólmi, en Trump hefur í­trekað haldið því fram að kosninga­svindl hafi átt sér stað. Hann hefur þó ekki lagt fram neinar hand­bærar sannanir um slíkt og hafa flestar mál­sóknir hans ekki borið árangur.

Eins og „óður konungur“

Bern­stein, sem er einnig greinandi hjá CNN, ræddi fram­komu Trumps síðast­liðinn föstu­dag hjá CNN en þar líkti Bern­stein Trump við „óðan konung á síðustu dögum valda­tíðar sinnar“ en hann sagðist hafa síðast­liðinn ár rætt við fjöl­marga aðila sem tengjast for­setanum. Hann nefndi 15 þing­menn þá og sagðist vita af fleirum.

„Ég er ekki að rjúfa neinn trúnaðar­eið blaða­mennsku með því að greina frá þessu: 21 öldunga­deildar­þing­maður Repúblikana – í sam­tali við sam­starfs­menn, starfs­lið, full­trúa þrýsti­hópa, að­stoðar­menn innan Hvíta hússins – hafa í­trekað lýst yfir fyrir­litningu á Trump og hæfni hans til að gegna em­bætti for­seta Banda­ríkjanna,“ skrifar Bern­stein í færslunni.

Þögnin hafi ýtt undir alvarlega hegðun Trumps

Bern­stein nefnir alla þing­mennina sem hafa lýst yfir fyrir­litningu á Trump í ein­rúmi en líkt og áður segir er um að ræða 21 þingmann, af þeim 53 sem sitja innan öldungadeildar Bandaríkjaþings.

„Með fáum undan­tekningum, hefur þeirra hug­lausa þögn á opin­berum vett­vangi hjálpað til við að ýta undir al­var­legustu hegðun Trumps – meðal annars að gera lítið úr og veikja traust á kosninga­kerfi Banda­ríkjanna,“ segir Bern­stein en ýmsar kenningar hafa komið fram frá Trump og teymi hans um meint kosninga­svindl.

Af þeim sem hann nefnir hefur að­eins einn þeirra, Mitt Rom­n­ey, talað á móti for­setanum á opin­berum vett­vangi. Auk Rom­n­ey hafa þó fjórir óskað Biden til hamingju með sigurinn auk þess sem að fimm hafa kallað eftir því að ferlið í kringum yfir­færslu valdsins til Bidens hefjist, sam­kvæmt frétt For­bes.

Áður eldað grátt silfur saman

Trump hefur ekki tjáð sig um málið enn sem komið er en hann hefur áður gagn­rýnt Bern­stein og meðal annars kallað hann „úr­kynjaðan bjána“ en til­efnið var frétta­flutningur CNN um að Rússar hafi reynt að hafa af­skipti af kosningunum árið 2016.

Þá hefur Trump einnig gagn­rýnt Bob Woodward, blaða­manninn sem kom upp um Wa­tergate-málið á­samt Bern­stein, eftir að hann gaf út bók um for­seta­tíð Trumps en Trump sagði bókina vera upp­fulla af lygum.