Undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar Alþingis fer í sína þriðju vettvangsferð til Borgarness í fyrramálið. „Verkefnið er að fara yfir flokkuð kjörgögn, það er það sem við erum að fara að tékka á,“ segir Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar.
Tilefni ferðarinnar eru upplýsingar sem komið hafa fram um að í endurtalningunni hafi yfirkjörstjórnin sjálf verið búin að telja nokkra flokka áður en talningafólk kom á staðinn. Þá kom einnig fram í máli starfsmanns yfirkjörstjórnar á fundi undirbúningsnefndarinnar að í endurtalningunni hafi atkvæðaseðlar ekki verið taldir frá grunni.
Um þetta segir í drögum nefndarinnar að málavaxtalýsingu: „Aðspurð sagði starfsmaðurinn að hún hefði viljað fá að telja öll atkvæðin aftur með sínu talningarfólki og hefði gert athugasemd við oddvita yfirkjörstjórnar hefði hún vitað að hann ætlaði að byrja talninguna áður en hún mætti á staðinn. Sagði starfsmaðurinn að í endurtalningu hefði hver listabókstafur verið tekinn fyrir sig og allt tvítalið aftur og samhliða athugað hvort allir atkvæðaseðlar væru rétt flokkaðir. Síðar á fundinum sagði starfsmaðurinn að í endurtalningunni hafi atkvæðaseðlar ekki verið taldir frá grunni.“
„Við erum að reyna að róa fyrir allar víkur áður en við tökum þetta til lokameðferðar,“ segir Birgir um vettvangsferðina. Hann segir vinnuna mjakast vel áfram og nefndin sé komin langt með flesta þætti sem þurfi að skoða.
Þegar Fréttablaðið ræddi við Birgi í dag var ekki útilokað að enn ættu eftir að berast athugasemdir við málavaxtalýsinguna en frestur til að skila þeim rennur út í dag.
„Þegar þær eru komnar getum við tekið afstöðu til þess hvort þurfi að breyta þeim texta í ljósi athugasemda,“ segir Birgir.
Svo tekur við umræða nefndarinnar um hina matskenndu þætti. „Við þurfum bæði að meta málavextina út frá gögnunum en svo þurfum við auðvitað að ræða þessi lagalegu atriði, það er auðvitað lokaglíman, að meta í hvaða tilvikum er um annmarka að ræða og þá hvort þeir teljast verulegir og þá þannig að þeir hafi áhrif á niðurstöðu kosninganna,“ segir hann.
Um tímaramma þeirrar umræðu segir Birgir: „Sú umræða þarf að eiga sér stað inni í nefndinni þegar gagnaöflun er lokið og það er erfitt að átta sig á því fyrir fram hve marga fundi mun þurfa í það. Það má búast við að þessi umræða fara eitthvað inn í næstu viku en ekki vitað á þessari stgundu hvaða tíma þetta tekur.
Verkefni nefndarinnar framundan að lokinni gerð lýsingar á málavöxtum, sé þríþætt. Í fyrsta lagi þurfi að leggja mat á þessa málavexti, sú umræða hefur að einhverju leyti farið fram segir Birgir. Í öðru lagi þarf að ræða lagalegu þættina með hliðsjón af málavöxtunum og í þriðja lagi að ræða hverjar okkar tillögur til þingsins eigi að vera á grundvelli laganna.