Undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar mun fara í sína þriðju vettvangsferð í Borgarnes fyrr en síðar.

Þetta segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata sem situr í undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar í samtalið við Fréttablaðið.

Nefndin fundaði í dag og mun halda áfram á morgun að sögn Björns Leví.

Vísir greindi frá því í dag að möguleiki væri á annarri vettvangsferð í Borgarnes til að rannsaka flokkun kjörseðla enn betur.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að starfsmaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, sem hafði umsjón með starfsfólki talningar, hefði sagt að yfirkjörstjórn hafi byrjað að endurtelja atkvæði áður en hún mætti á svæðið á sunnudeginum 26. september. Hún sagði jafnframt að búið hafi verið telja nokkra flokka áður en starfsfólk talningar tók við talningunni.

Þetta kemur fram í drögum málsatvikalýsingar undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa á framkvæmd kosninga í Norðvesturkjördæmi.

„Það er ýmislegt athugavert við málsatvikin en ég er ekki á þeim stað að draga ályktanir um áhrifin af þeim. Það er vinnan sem er eftir hjá nefndinni, að meta málsatvikin til áhrifa,“ sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og nefndarmaður undirbúningsnefndar, í samtali við Fréttablaðið í gær þegar hún var spurð hvaða áhrif þetta hefði á ákvörðun nefndarinnar.