Górillan Ndakasi, sem varð heimfræg árið 2019 er hún tróð sér inn á sjálfu hjá þjóðgarðsverði í Afríku, er látin. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Ndakasi lést í örmum Andre Bauma, sem bjargaði henni sem unga árið 2007, í þjóðgarði í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó í Afríku.

Bauma bjargaði Ndakasi þegar hún var aðeins tveggja mánaða gömul eftir að veiðiþjófar höfðu myrt foreldra hennar. Ndakasi hélt enn utan um látna móður sína þegar hún fannst.

Þar sem hún var svo ung og með engin skyldmenni í nálægð mátu þjóðgarðsverðirnir það svo að það væri of hættulegt að senda Ndakasi eina inn í frumskóginn að nýju.

Hún var því alin upp á munaðarleysingjahæli fyrir górillur þar sem Bauma vinnur.

Í við­tali við BBC árið 2014 sagði Bauma að hann elskaði Nda­kasi eins og dóttur. „Við deildum rúmi, ég lék við hana og gaf henni að borða. Það má segja að ég sé móðir hennar.“

Nda­kasi var lang­veik og drógu veikindin hana til dauða að lokum. Hún var fjór­tán ára gömul.

Bauma gefur Ndakasi mjólk árið 2007 rétt eftir að foreldrar hennar voru myrtir af veiðiþjófum.
Ljósmynd/EPA