Rúss­neskur dóm­stóll hefur nú úr­skurðað Alexei Naval­ny í 30 daga varð­hald áður en mál hans verður tekið fyrir af dóm­stólum en hann var hand­tekinn við komuna til Mosku í gær eftir að hafa rofið skil­orð vegna dóms sem hann hlaut fyrir fjár­drátt árið 2014.

Að því er kemur fram í frétt Al Jazeera um málið var tíma­bundinn dóm­salur settur upp innan lög­reglu­stöðvar í Khimki, skammt frá Mosku, en að­stoðar­menn Naval­nys segja að hann hafi ekki fengið að tala við lög­fræðinga sína áður en málið var tekið fyrir á síðustu stundu.

Naval­ny segir að á­kærurnar gegn honum sem leiddu til dómsins árið 2014 hafi verið til­komnar af pólitískum á­stæðum en hann hefur verið veru­lega gagn­rýninn í garð Vla­dimírs Pútín Rúss­lands­for­seta í gegnum tíðina. Í mynd­bandi sem hann birti í dag var hann harð­orður í garð for­setans.

Þá hvatti hann fólk til þess að halda út á götur til að mót­mæla úr­skurðinum og fram­göngu rúss­neskra stjórn­valda. „Ekki fara út fyrir mig, farið út fyrir ykkur sjálf og fram­tíð ykkar,“ sagði Naval­ny í kjöl­far úr­skurðarins.

Óljóst hvenær málið verður tekið fyrir

Fjölmargir þjóðarleiðtogar hafa fordæmt framgöngu rússneskra stjórnvalda í málinu og kröfðust þess að Navalny yrði sleppt úr haldi en rússnesk yfirvöld standa á sínu.

Navalny mun nú sitja inni í fangelsi að minnsta kosti til 15. febrúar en annar dóm­stóll mun síðar taka það fyrir hvort Naval­ny þurfi að sitja inni í þrjú og hálft ár, líkt og skil­orðs­bundni dómur hans kvað á um. Ó­ljóst er þó hve­nær málið verður tekið fyrir.

Á­stæðan fyrir hand­töku hans var líkt og áður segir brot á skil­orði en hann átti að gefa sig fram til yfir­valda í desember. Á þeim tíma var hann í Ber­lín en hann var fluttur þangað í ágúst eftir að hann hafði komist í tæri við tauga­eitrið Novachok. Hann lá þar í dái í tvær vikur en útskrifaðist af spítalanum í september.

Teymi hans hélt því fram að rúss­nesk yfir­völd hafi staðið fyrir á­rásinni, þar sem sambærilegt eitur hafði áður verið notað af rússneskum útsendurum, og fékk Naval­ny meira að segja út­sendara FSB til að játa sök í sím­tali síðast­liðinn desember. Þrátt fyrir allt hafa rúss­nesk yfir­völd í­trekað neitað að þau hafi átt þátt í málinu.