Rússneskur dómstóll hefur nú úrskurðað Alexei Navalny í 30 daga varðhald áður en mál hans verður tekið fyrir af dómstólum en hann var handtekinn við komuna til Mosku í gær eftir að hafa rofið skilorð vegna dóms sem hann hlaut fyrir fjárdrátt árið 2014.
Að því er kemur fram í frétt Al Jazeera um málið var tímabundinn dómsalur settur upp innan lögreglustöðvar í Khimki, skammt frá Mosku, en aðstoðarmenn Navalnys segja að hann hafi ekki fengið að tala við lögfræðinga sína áður en málið var tekið fyrir á síðustu stundu.
Navalny segir að ákærurnar gegn honum sem leiddu til dómsins árið 2014 hafi verið tilkomnar af pólitískum ástæðum en hann hefur verið verulega gagnrýninn í garð Vladimírs Pútín Rússlandsforseta í gegnum tíðina. Í myndbandi sem hann birti í dag var hann harðorður í garð forsetans.
"They just tore up all criminal procedure laws and threw them in the trash."
— TRT World (@trtworld) January 18, 2021
Kremlin critic Alexey Navalny on his hearing at an ad hoc court in a Moscow police station where it was ruled he will remain in custody for 30 days pic.twitter.com/RVkQItyzMa
Þá hvatti hann fólk til þess að halda út á götur til að mótmæla úrskurðinum og framgöngu rússneskra stjórnvalda. „Ekki fara út fyrir mig, farið út fyrir ykkur sjálf og framtíð ykkar,“ sagði Navalny í kjölfar úrskurðarins.
Óljóst hvenær málið verður tekið fyrir
Fjölmargir þjóðarleiðtogar hafa fordæmt framgöngu rússneskra stjórnvalda í málinu og kröfðust þess að Navalny yrði sleppt úr haldi en rússnesk yfirvöld standa á sínu.
Navalny mun nú sitja inni í fangelsi að minnsta kosti til 15. febrúar en annar dómstóll mun síðar taka það fyrir hvort Navalny þurfi að sitja inni í þrjú og hálft ár, líkt og skilorðsbundni dómur hans kvað á um. Óljóst er þó hvenær málið verður tekið fyrir.
Ástæðan fyrir handtöku hans var líkt og áður segir brot á skilorði en hann átti að gefa sig fram til yfirvalda í desember. Á þeim tíma var hann í Berlín en hann var fluttur þangað í ágúst eftir að hann hafði komist í tæri við taugaeitrið Novachok. Hann lá þar í dái í tvær vikur en útskrifaðist af spítalanum í september.
Teymi hans hélt því fram að rússnesk yfirvöld hafi staðið fyrir árásinni, þar sem sambærilegt eitur hafði áður verið notað af rússneskum útsendurum, og fékk Navalny meira að segja útsendara FSB til að játa sök í símtali síðastliðinn desember. Þrátt fyrir allt hafa rússnesk yfirvöld ítrekað neitað að þau hafi átt þátt í málinu.
Police detained opposition figure Alexey Navalny on his arrival at Moscow airport on Tuesday evening. It was his first time returning to Russia since he was poisoned and almost died in August 2020. Read more: https://t.co/zJbACQF16N pic.twitter.com/saSwZgDbiV
— Al Jazeera English (@AJEnglish) January 18, 2021