Stjórnarandstöðuleiðtoginn Alexei Navalny áfram vera í hungurverkfalli þrátt fyrir að vera með hita og slæman hósta en teymi Navalny greindi frá þessu á Instagram í gær. Navalny ákvað í síðustu viku að fara í hungurverkfall eftir að fangaverðir neituðu honum um læknisþjónustu en hann hefur verið að glíma við bakverki síðastliðnar vikur.
Að því er kemur fram í færslunni hafa nokkrir fangar veikst alvarlega af berklum og að um 20 prósent allra fanga í fangelsinu væru nú veikir en óljóst er hvort veikindin Navalny tengjast því. Færslan kemur í kjölfar þess að rússnesk yfirvöld héldu því fram að Navalny væri í góðu atlæti í fangelsinu en Navalny segir það vera fjarri sannleikanum.
„Hver fangi biður til Guðs til að lenda ekki hérna, en hér inni eru heilsuspillandi aðstæður, berklaveiki, skortur á lyfjum. Horfandi á skelfilegu diskana sem þeir nota til að gefa okkur graut er ég hissa að það sé enn engin ebólaveira hér,“ segir í færslunni.
Að því er kemur fram í frétt CNN um málið sagði talsmaður Kreml í samtali við blaðamenn fyrr í dag að Navalny fengi enga sérstaka meðferð í fangelsinu en að ef hann væri í raun veikur myndi hann að sjálfsögðu fá viðeigandi meðferð innan veggja fangelsisins.
Ásakanir í garð rússneskra yfirvalda
Navalny hefur um árabil verið einn helsti andstæðingur Vladimír Pútíns Rússlandsforseta en hann var handtekinn í upphafi árs fyrir að brjóta á skilorði þar sem hann gaf sig ekki fram til yfirvalda síðastliðinn desember. Hann var þá enn staddur í Þýskalandi eftir að hafa komist í tæri við taugaeitrið Novachok.
Teymi Navalny hefur ítrekað haldið því fram að útsendarar á vegum Pútíns hafi fyrirskipað eitrunina en Pútín hefur alfarið neitað því. Navalny fékk þó útsendara rússnesku leyniþjónustunnar FSB til að játa sök í símtali síðastliðinn desember.
Í febrúar var Navalny loks dæmdur í tveggja ára og átta mánaða fangelsi fyrir að rjúfa skilorð og var fluttur á fanganýlendu í kjölfarið. Fjölmargir hafa mótmælt því hvernig rússnesk yfirvöld hafa farið fram í málinu og halda því fram að upprunalegur dómur Navalny, sem féll árið 2014 og sneri að fjárdrátti, hafi verið tilkominn af pólitískum ástæðum.