Stjórnar­and­stöðu­leið­toginn Alexei Naval­ny á­fram vera í hungur­verk­falli þrátt fyrir að vera með hita og slæman hósta en teymi Naval­ny greindi frá þessu á Insta­gram í gær. Naval­ny á­kvað í síðustu viku að fara í hungur­verk­fall eftir að fanga­verðir neituðu honum um læknis­þjónustu en hann hefur verið að glíma við bak­verki síðast­liðnar vikur.

Að því er kemur fram í færslunni hafa nokkrir fangar veikst al­var­lega af berklum og að um 20 prósent allra fanga í fangelsinu væru nú veikir en ó­ljóst er hvort veikindin Naval­ny tengjast því. Færslan kemur í kjöl­far þess að rúss­nesk yfir­völd héldu því fram að Naval­ny væri í góðu at­læti í fangelsinu en Naval­ny segir það vera fjarri sann­leikanum.

„Hver fangi biður til Guðs til að lenda ekki hérna, en hér inni eru heilsu­spillandi að­stæður, berkla­veiki, skortur á lyfjum. Horfandi á skelfi­legu diskana sem þeir nota til að gefa okkur graut er ég hissa að það sé enn engin ebóla­veira hér,“ segir í færslunni.

Að því er kemur fram í frétt CNN um málið sagði tals­maður Kreml í sam­tali við blaða­menn fyrr í dag að Naval­ny fengi enga sér­staka með­ferð í fangelsinu en að ef hann væri í raun veikur myndi hann að sjálf­sögðu fá við­eig­andi með­ferð innan veggja fangelsisins.

Ásakanir í garð rússneskra yfirvalda

Naval­ny hefur um ára­bil verið einn helsti and­stæðingur Vla­dimír Pútíns Rúss­lands­for­seta en hann var hand­tekinn í upp­hafi árs fyrir að brjóta á skil­orði þar sem hann gaf sig ekki fram til yfir­valda síðast­liðinn desember. Hann var þá enn staddur í Þýska­landi eftir að hafa komist í tæri við tauga­eitrið Novachok.

Teymi Naval­ny hefur í­trekað haldið því fram að út­sendarar á vegum Pútíns hafi fyrir­skipað eitrunina en Pútín hefur al­farið neitað því. Naval­ny fékk þó út­sendara rúss­nesku leyni­þjónustunnar FSB til að játa sök í sím­tali síðast­liðinn desember.

Í febrúar var Naval­ny loks dæmdur í tveggja ára og átta mánaða fangelsi fyrir að rjúfa skil­orð og var fluttur á fanga­ný­lendu í kjöl­farið. Fjöl­margir hafa mót­mælt því hvernig rúss­nesk yfir­völd hafa farið fram í málinu og halda því fram að upp­runa­legur dómur Naval­ny, sem féll árið 2014 og sneri að fjár­drátti, hafi verið til­kominn af pólitískum á­stæðum.