Rússneski stjórnarandstöðuleiðtoginn Alexei Navalny hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi og er sagður hafa náð góðum bata í kjölfar alvarlegrar eitrunar.

Navalny vaknaði úr dái fyrir rúmum tveimur vikum og hefur dvalið á Charité spítalanum í Berlín í hátt í mánuð. Telja læknar nú að hann muni ná fullri heilsu en tvísýnt var hver langtímaáhrif eitrunarinnar yrðu.

Teymi hans sakar Vladimir Putin Rússlandsforseta um að hafa fyrirskipað að eitrað yrði fyrir Navalny sem hefur verið í forsvari fyrir stjórnarandstöðuhreyfinguna í landinu.

Rússnesk stjórnvöld hafa alfarið hafnað þeim ásökunum en fjölmargir þjóðarleiðtogar hafa kallað eftir sjálfstæðri rannsókn á málinu.

Navalny veiktist illa um borð í flugvél þann 20. ágúst sem var þá nauðlent í Síberíu. Hann var síðar fluttur til Þýskalands og mun nú dvelja þar áfram á meðan hann lýkur læknismeðferð sinni.

Þýsk stjórn­völd sögðu um síðustu mánaðamót að rann­sóknir sýndu, svo ekki væri um villst, að Naval­ny hefði komist í tæri við tauga­eitrið Novochok. Um er að ræða sama eitur og var notað gegn rúss­neska njósnaranum Sergei Skripal og dóttur hans í Eng­landi árið 2018.

Niðurstöðurnar voru síðar staðfestar af vísindamönnum í Frakklandi og Svíþjóð sem komust að sömu niðurstöðu.

Þá hefur teymi Navalny fullyrt að hann hafi veikst eftir að hafa drukkið úr eitraðri vatnsflösku á hótel herbergi sínu í Síberíu.