Rúss­nesk stjórn­völd fluttu stjórnar­and­stöðu­leið­togann Alexei Naval­ny á fangelsis­spítala í Mos­vku í dag fyrir svo­kallaða víta­mín­með­ferð. Læknar hans höfðu áður full­yrt að tölu­verðar líkur væru á því að Naval­ny myndi fá hjarta­á­fall en heilsu hans hefur hrakað mikið vegna hungur­verk­falls sem hann hefur staðið í í rúmar tvær vikur.

Rúss­nesk fangelsis­mála­yfir­völd sendu út yfir­lýsingu þess efnis að stjórn­skipuð nefnd lækna hefði tekið á­kvörðun um að flytja Naval­ny á sjúkra­hús en engin við­brögð hafa enn borist frá stuðnings­mönnum hans eða læknum hans varðandi hina svo­kölluðu víta­mín­með­ferð. Læknar Naval­ny lýstu á­standi hans sem mjög slæmu um helgina, hann eigi bæði á hættu að verða fyrir hjarta- og nýrna­bilun, og kröfðust þess að hann yrði lagður inn á gjör­gæslu tafarlaust.

Flutningurinn Navalny á spítala gæti verið til merkis um að heilsu hans fari hrakandi en yfir­lýsingin frá fangelsis­mála­yfir­völdum gefur til kynna að mark­miðið sé að fylgjast nánar með heilsu hans.

„Eins og stendur er heilsa A. Naval­ny metin sem við­unandi,“ segir í yfir­lýsingunni en þar kemur einnig fram að hann sé undir dag­legu læknis­eftir­liti og hafi sam­þykkt að gangast undir áður­nefnda víta­mín­með­ferð.