Rúss­neski stjórnar­and­stæðingurinn Alexei Naval­ny er kominn aftur heim til Rúss­lands, fimm mánuðum eftir að reynt var að eitra fyrir honum.

BBC greinir frá þessu.

Málið vakti mikla at­hygli í fyrra­sumar en Naval­ny hefur löngum verið mjög gagn­rýninn á Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seta og telur að menn á hans vegum hafi reynt að drepa hann.

Hann var fluttur, mikið veikur, til Þýska­lands í ágúst síðast­liðnum eftir að hann hneig niður á flug­vellinum í Tomsk. Var talið að ein­hver hafi komið fyrir No­vichok, stór­hættu­legu eitri, í vatns­flösku sem Naval­ny drakk úr á hótel­her­bergi hans í borginni áður en hann fór út á flug­völl.

Læknar í Þýska­landi sögðust sann­færðir um að eitrað hefði verið fyrir honum, en rúss­nesk yfir­völd segjast ekkert kannast við að standa að baki til­ræðinu.

Naval­ny lenti í Moskvu í dag en í frétt BBC kemur fram að Naval­ny, sem er 44 ára, eigi yfir höfði sér hand­töku í Rúss­landi. Áður en Naval­ny hélt af stað frá Þýska­landi til Rúss­lands sagðist hann sann­færður um að allt færi vel og hann væri á­nægður að snúa aftur til heima­landsins.

Á­stæða þess að hann á hand­töku yfir höfði sér er sú að hann átti að gefa sig fram við yfir­völd í desember síðast­liðnum vegna skil­orðs­bundins dóms sem hann hafði hlotið fyrir fjár­drátt. Eðli málsins sam­kvæmt gaf hann sig ekki fram, enda staddur í Þýska­landi, og telja sak­sóknarar að með því hafi hann rofið skil­orð.

Þá stendur yfir rann­sókn á öðrum meintum fjár­drætti, en sjálfur segir Naval­ny að þessi af­skipti yfir­valda eigi sér pólitískar rætur og að Vla­dimír Pútín reyni að gera allt til að þagga niður í honum.

Viðbót kl. 19:02: BBC greinir frá því að Navalny hafi verið handtekinn við komuna til Rússlands.