Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalny er kominn aftur heim til Rússlands, fimm mánuðum eftir að reynt var að eitra fyrir honum.
BBC greinir frá þessu.
Málið vakti mikla athygli í fyrrasumar en Navalny hefur löngum verið mjög gagnrýninn á Vladimír Pútín Rússlandsforseta og telur að menn á hans vegum hafi reynt að drepa hann.
Hann var fluttur, mikið veikur, til Þýskalands í ágúst síðastliðnum eftir að hann hneig niður á flugvellinum í Tomsk. Var talið að einhver hafi komið fyrir Novichok, stórhættulegu eitri, í vatnsflösku sem Navalny drakk úr á hótelherbergi hans í borginni áður en hann fór út á flugvöll.
Læknar í Þýskalandi sögðust sannfærðir um að eitrað hefði verið fyrir honum, en rússnesk yfirvöld segjast ekkert kannast við að standa að baki tilræðinu.
Navalny lenti í Moskvu í dag en í frétt BBC kemur fram að Navalny, sem er 44 ára, eigi yfir höfði sér handtöku í Rússlandi. Áður en Navalny hélt af stað frá Þýskalandi til Rússlands sagðist hann sannfærður um að allt færi vel og hann væri ánægður að snúa aftur til heimalandsins.
Ástæða þess að hann á handtöku yfir höfði sér er sú að hann átti að gefa sig fram við yfirvöld í desember síðastliðnum vegna skilorðsbundins dóms sem hann hafði hlotið fyrir fjárdrátt. Eðli málsins samkvæmt gaf hann sig ekki fram, enda staddur í Þýskalandi, og telja saksóknarar að með því hafi hann rofið skilorð.
Þá stendur yfir rannsókn á öðrum meintum fjárdrætti, en sjálfur segir Navalny að þessi afskipti yfirvalda eigi sér pólitískar rætur og að Vladimír Pútín reyni að gera allt til að þagga niður í honum.
Viðbót kl. 19:02: BBC greinir frá því að Navalny hafi verið handtekinn við komuna til Rússlands.