Aleksei A. Navalny, helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússlandi, hefur verið lagður inn á gjörgæslu í Síberíu. Er hann sagður vera meðvitundarlaus í öndunarvél með einkenni sem talskona hans segir tengjast eitrun.

Kira Yarmysh, talskona Navalny, greindi frá því á Twitter að hann hafi verið á leið til Moskvu með flugi þegar hann fór að finna fyrir veikindum. Var vélinni þá nauðlent í borginni Omsk í suðvesturhluta Síberíu. New York Times greinir frá þessu.

Sagður í alvarlegu ástandi

„Við teljum að eitrað hafi verið fyrir Alexei með einhverju sem blandað var út í teið hans. Það er það eina sem hann drakk í morgun,“ sagði Yarmysh.

Þá segir hún þau hafi eftir því að lögreglan hefði viðveru á spítalanum.

Alexander Murakhovsky, yfirlæknir á spítalanum í Omsk, sagði í samtali við rússneska miðilinn Tass að Navalny væri í „alvarlegu ástandi.“

Takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir að svo stöddu og hafa rússnesk stjórnvöld ekki tjáð sig um fregnirnar.

Heyrðist kveina af sársauka

Myndbönd sem birt hafa verið af rússneskum fréttamiðlum sýna meðvitundarlausan Navalny fluttan í sjúkrabíl á flugbraut í Omsk.

Í öðru myndbandi sem tekið var inn í flugvélinni heyrast kvalastunur frá stjórnarandstöðuleiðtoganum óma um farþegarýmið.

Á síðasta ári var Navalny lagður inn á spítala með „alvarleg ofnæmisviðbrögð á meðan hann var í fangelsi.

Á þeim tíma gaf læknir hans til kynna að veikindin gætu hafa verið afleiðingar eitrunar.

Hafði hann þá verið hnepptur í varðhald fyrir að boða til óleyfilegra mótmæla í kjöl­far þess að hon­um var meinað að bjóða fram í borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­un­um í Moskvu.