Alexei Naval­ny, einn helsti leið­togi stjórnar­and­stöðunnar í Rúss­landi, birti í dag mynd af sér á Insta­gram úr spítala­rúmi sínu í Ber­lín en Naval­ny vaknaði úr dái í síðustu viku eftir að eitrað hafði verið fyrir honum með tauga­eitri í síðasta mánuði.

„Hæ, þetta er Naval­ny. Ég sakna ykkar. Ég get varla gert neitt enn sem komið er, en í gær gat ég andað sjálfur. Al­gjör­lega án að­stoðar,“ skrifaði Naval­ny við færsluna og birti mynd af sér með eigin­konu sinni og börnum.

Veiktist eftir að hafa komist í tæri við tauga­eitrið Novochok

Líkt og áður hefur komið fram var Naval­ny fluttur á spítala í Omsk eftir að hann veiktist um borð í flug­vél á leið til Moskvu þann 20. ágúst síðast­liðinn. Hann var síðan fluttur á spítala í Ber­lín þar sem teymi Naval­ny óttaðist að hann væri í lífs­hættu í höndum rúss­neskra lækna.

Rúss­neskir læknar höfðu þá sagt að engin um­merki um eitur hafi fundist í líkama Naval­ny en þegar hann var fluttur til Þýska­lands sögðu yfir­völd þar í landi að það væri ljóst að Naval­ny hafi komist í tæri við tauga­eitrið Novochok.

Naval­ny hefur verið mjög gagn­rýninn á Vla­dímir Pútín Rúss­lands­for­seta og stjórn hans á undan­förnum árum en teymi Naval­ny telur að Pútín hafi átt hlut í málinu og er þar vísað til þess að sama eitur hafi verið notað gegn rúss­neskum njósnara árið 2018.

Kreml hefur þó al­farið neitað þeim á­sökunum en fjöl­margir þjóðar­leið­togar hafa kallað eftir því að rann­sókn verði hafin á málinu.