Rúss­neski stjórnar­and­stæðingurinn Alexei Naval­ny, sem var fyrr á árinu dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir brot á skil­orði, á nú yfir höfði sér nýjar á­kærur en rann­sóknar­nefnd Rússa, sem er falið að rann­saka al­var­lega glæpi, greindi frá málinu í dag.

Að því er kemur fram í frétt Reu­ters um málið er Naval­ny gefið að sök að hafa stofnað sam­tök sem hvöttu Rússa til að brjóta lög en dóm­stóll í Rúss­landi komst að þeirri niður­stöðu síðast­liðinn júní að sam­tökin, sem var ætlað að vinna gegn spillingu, væru ó­lög­leg þar sem um væri að ræða öfga­sam­tök.

Naval­ny gæti átt von á allt að þremur árum til við­bótar í fangelsi verði hann dæmdur en mál hans hefur vakið at­hygli víða um heim þar sem margir telja að pólitískar á­stæður hafi verið að baki fangelsun hans fyrr á árinu. Hann er nú vistaður á fanga­ný­lendu og kveðst hann hafa þurft að sæta slæmri með­ferð þar.

Segir málið tilkomið af pólitískum ástæðum

Tæp­lega ár er nú liðið frá því að Naval­ny var lagður inn á gjör­gæslu í Síberíu vegna mögu­legrar eitrunar en Naval­ny var þá á leiðinni til Moskvu með flugi. Hann var þá í dái en að sögn læknanna í Síberíu voru engin merki um eitrun að finna í líkama hans.

Teymi Naval­ny taldi rúss­nesk yfir­völd hafa eitrað fyrir honum og kröfðust þess að hann yrði fluttur til Þýska­lands og þegar þangað var komið sögðu þýskir læknar að Naval­ny hafi komist í tæri við tauga­eitrið Novochok, sam­bæri­legt eitur og hefur áður verið notað af rúss­neskum út­sendurum.

Naval­ny út­skrifaðist af spítala í Ber­lín í septem­ber sama ár og í janúar á þessu ári hélt hann aftur til Rúss­lands þar sem hann var hand­tekinn af rúss­neskum yfir­völdum en hann hafði þá rofið skil­orð fyrir dóm sem hann hlaut árið 2014 með því að gefa sig ekki fram til yfir­valda í desember.

Hann hefur í­trekað haldið því fram að dómurinn 2014 og dómurinn í ár hafi verið til­komnir af pólitískum á­stæðum en Naval­ny hefur verið harð­lega gagn­rýninn í garð Vla­dimírs Pútín Rúss­lands­for­seta.