Rússneski stjórnarandstæðingurinn Aleksei Navalny mætti aftur fyrir dómara í Moskvu í dag en hann var dæmdur til tveggja ára og átta mánaða langrar fangelsisvistar á þriðjudaginn fyrir að rjúfa skilorðsbundinn dóm fyrir fjárdrátt. Nú er hann ákærður fyrir meiðyrði gegn hermanni og neitar sök. Fyrirhuguð eru mótmæli í Reykjavík á morgun, gegn meðferð rússneskra stjórnvalda á Navalny og öðrum stjórnarandstæðingum.
Rússnesk yfirvöld hafa rekið diplómata frá Þýskalandi, Póllandi og Svíþjóð úr landi vegnar meintrar þátttöku þeirra í mótmælum til stuðnings Navalny. Yfirvöld í Þýskalandi og Svíþjóð segja þetta ekki eiga við nein rök að styðjast og enginn á þeirra vegum tekið nokkurn þátt í neinum mótmælum.
Lögfræðiteymi Navalny telur ekki hættu á að hann hljóti lengri fangelsisdóm verði hann fundinn sekur um meiðyrði. Lögfræðingar hans telja ákæruna tilraun stjórnar Vladimír Pútín Rússlandsforseta, sem Navalny hefur lengi barist gegn, til að leggja meira á lögfræðinga hans og gefa ríkismiðlum tækifæri til að sverta ímynd hans enn frekar. Stjórnarandstæðingurinn getur enn áfrýjað dóminum sem hann hlaut á þriðjudaginn fyrir skilorðsbrotið og vinna lögfræðingar hans að því samkvæmt heimildum New York Times.

Saksóknarnar segja Navalny látið meiðyrði falla um rússneskan hermann sem barðist í síðari heimsstyrjöld á samfélagsmiðlum í fyrra. Í færslu sem Navalny birti gagnrýndi hann þá sem studdu breytingar stjórnar Pútín á stjórnarskrá landsins sem samþykktar voru í júlí. Í krafti breytinganna getur Pútín setið í embætti forseta til 2036.
Kreml þarf höfuðsagnir sem segja, ‚Navalny lét meiðyrði falla um hermann!
„Kreml þarf höfuðsagnir sem segja, ‚Navalny lét meiðyrði falla um hermann!‘“ sagði Navalny fyrir rétti í dag, samkvæmt rússnesku sjónvarpsstöðinni Dozhd. Leonid Volkov, aðstoðarmaður Navalny, segir að ekki yrði kallað eftir frekari mótmælum gegn stjórn Pútín í Rússlandi á næstunni. Undanfarið hafa farið fram fjölmenn mótmæli víða um landið honum og baráttunni gegn forsetanum til stuðnings. Lögregla hefur barið þau niður af hörku og þúsundir verðið handteknar.

Bandamenn Navalny leitast nú við að afla þess stuðnings meðal stjórnvalda á Vesturlöndum að settar verði viðskiptaþvinganir og refsiaðgerðum beitt gegn Pútín og háttsettum valdamönnum í Rússlandi, til að fá hann leystan úr haldi og knýja fram breytingar á stjórnarfari landsins.
Klukkan 14 á morgun eru skipulögð mótmæli fyrir framan rússneska sendiráðið í Reykjavík. Þar hyggjast rússneskir ríkisborgarar búsettir hér á landi mótmæla mannréttindabrotum og takmörkunum á tjáningarfrelsi í heimalandi sínu. Skipuleggjendur þeirra segja í fréttatilkynningu að kveikjan að þeim sé meðal annars dómurinn yfir Navalny, „vegna upploginna saka.“

Mótmælin eru hluti af hreyfingu rússneskra ríkisborgara víða um heim og eru mótmæli fyrirhuguð um helgina í fjölmörgum Evrópuríkjum, Bandaríkjunum og Kanada. Krafa mótmælenda er að Navalny og öðrum pólitískum föngum verði tafarlaust sleppt sem og blaðamönnum sem skrifað hafa með gagnrýnum hætti um stjórnvöld í Rússlandi.
Skipuleggjendur þeirra hafa útbúið kröfugerð sem ber yfirskriftina „Fimm skref“ um endurbætur í landinu sem þeir hvetja rússnesk yfirvöld til að taka upp. Meðal þeirra eru að rússneskir borgarar fái stuðningsgreiðslur vegna COVID-19, lítil og meðalstór fyrirtæki sömuleiðis og að allir skattar á lítil fyrirtæki, utan tekjuskatts, verði felldir niður í eitt ár frá og með apríl.