Rúss­neski stjórnar­and­­stæðingurinn Alek­­sei Naval­ny mætti aftur fyrir dómara í Moskvu í dag en hann var dæmdur til tveggja ára og átta mánaða langrar fangelsis­vistar á þriðju­­daginn fyrir að rjúfa skil­orðs­bundinn dóm fyrir fjár­­drátt. Nú er hann á­kærður fyrir meið­yrði gegn her­manni og neitar sök. Fyrir­­huguð eru mót­­mæli í Reykja­vík á morgun, gegn með­­ferð rúss­neskra stjórn­valda á Naval­ny og öðrum stjórnar­and­­stæðingum.

Rúss­nesk yfir­völd hafa rekið diplómata frá Þýska­landi, Pól­landi og Sví­þjóð úr landi vegnar meintrar þátt­töku þeirra í mót­mælum til stuðnings Naval­ny. Yfir­völd í Þýska­landi og Sví­þjóð segja þetta ekki eiga við nein rök að styðjast og enginn á þeirra vegum tekið nokkurn þátt í neinum mót­mælum.

Lög­fræði­teymi Naval­ny telur ekki hættu á að hann hljóti lengri fangelsis­dóm verði hann fundinn sekur um meið­yrði. Lögfræðingar hans telja á­kæruna til­raun stjórnar Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seta, sem Naval­ny hefur lengi barist gegn, til að leggja meira á lög­fræðinga hans og gefa ríkismiðlum tæki­færi til að sverta í­mynd hans enn frekar. Stjórnar­and­stæðingurinn getur enn á­frýjað dóminum sem hann hlaut á þriðjudaginn fyrir skil­orðs­brotið og vinna lög­fræðingar hans að því sam­kvæmt heimildum New York Times.

Navalny sat í glerbúri fyrir rétti í dag.
Fréttablaðið/EPA

Sak­sóknarnar segja Naval­ny látið meið­yrði falla um rúss­neskan her­mann sem barðist í síðari heims­styrj­öld á sam­fé­lags­miðlum í fyrra. Í færslu sem Naval­ny birti gagn­rýndi hann þá sem studdu breytingar stjórnar Pútín á stjórnar­skrá landsins sem sam­þykktar voru í júlí. Í krafti breytinganna getur Pútín setið í em­bætti for­seta til 2036.

Kreml þarf höfuð­sagnir sem segja, ‚Naval­ny lét meið­yrði falla um her­mann!

„Kreml þarf höfuð­sagnir sem segja, ‚Naval­ny lét meið­yrði falla um her­mann!‘“ sagði Naval­ny fyrir rétti í dag, sam­kvæmt rúss­nesku sjón­varps­stöðinni Doz­hd. Leonid Vol­kov, að­stoðar­maður Naval­ny, segir að ekki yrði kallað eftir frekari mót­mælum gegn stjórn Pútín í Rúss­landi á næstunni. Undan­farið hafa farið fram fjöl­menn mót­mæli víða um landið honum og bar­áttunni gegn for­setanum til stuðnings. Lög­regla hefur barið þau niður af hörku og þúsundir verðið hand­teknar.

Frá mótmælum til stuðnings Navalny í St. Pétursborg á þriðjudaginn.
Fréttablaðið/EPA

Banda­menn Naval­ny leitast nú við að afla þess stuðnings meðal stjórn­valda á Vestur­löndum að settar verði við­skipta­þvinganir og refsi­að­gerðum beitt gegn Pútín og hátt­settum valda­mönnum í Rúss­landi, til að fá hann leystan úr haldi og knýja fram breytingar á stjórnar­fari landsins.

Klukkan 14 á morgun eru skipu­lögð mót­mæli fyrir framan rúss­neska sendi­ráðið í Reykja­vík. Þar hyggjast rúss­neskir ríkis­borgarar bú­settir hér á landi mót­mæla mann­réttinda­brotum og tak­mörkunum á tjáningar­frelsi í heima­landi sínu. Skipu­leggj­endur þeirra segja í frétta­til­kynningu að kveikjan að þeim sé meðal annars dómurinn yfir Naval­ny, „vegna upp­loginna saka.“

Sendiráð Rússlands að Tún­götu 24.
Fréttablaðið/Anton Brink

Mót­mælin eru hluti af hreyfingu rúss­neskra ríkis­borgara víða um heim og eru mót­mæli fyrir­huguð um helgina í fjöl­mörgum Evrópu­ríkjum, Banda­ríkjunum og Kanada. Krafa mót­mælenda er að Naval­ny og öðrum pólitískum föngum verði tafar­laust sleppt sem og blaða­mönnum sem skrifað hafa með gagn­rýnum hætti um stjórn­völd í Rúss­landi.

Skipu­leggj­endur þeirra hafa út­búið kröfu­gerð sem ber yfir­skriftina „Fimm skref“ um endur­bætur í landinu sem þeir hvetja rússnesk yfir­völd til að taka upp. Meðal þeirra eru að rússneskir borgarar fái stuðningsgreiðslur vegna COVID-19, lítil og meðalstór fyrirtæki sömuleiðis og að allir skattar á lítil fyrirtæki, utan tekjuskatts, verði felldir niður í eitt ár frá og með apríl.