Mikilvægt er að afmá stíga eða slóða sem eru ekki lengur í notkun við gosstöðvarnar, segir René Biasone, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun. „Þegar þessar leiðir eru byggðar upp hefur verið leitað eftir áliti Umhverfisstofnunnar og við höfum alltaf bent á það sem þarf að huga að því að afmá.“

Það er stefna stofnunarinnar að alltaf skuli afmá jarðrask eftir framkvæmdir og á það einnig við um svæðið í kringum gosstöðvarnar. „Stofnunin mælir með því og telur það vera nauðsynlegt til að bæta ásýnd svæðisins, sérstaklega því þetta verður mjög fjölsótt svæði. Bara það að afmá þessa slóða sem eru ekki í notkun bætir upplifun fólks og er líka náttúruverndarráðstöfun,“ segir René.

Hann bendir á að þegar hraunrennsli er ekki lengur að breyta ákveðnum svæðum verði hægt að setja upp áætlun um hvernig varanlegir stígar eða slóðar eiga að vera.

Hann giskar á að enn sé töluvert í framkvæmdirnar enda hraunið enn að færa sig. Þá bendir René á að þær leiðir sem hafa verið lagðar síðan eldgos hófst séu bráðaaðgerðir sem taldar hafa verið nauðsynlegar til að bæta öryggi og aðgengi viðbragðsaðila á svæðinu. „Uppbygging gossvæðisins sem ferðamannastaðar er langtímaplan sem fer í hefðbundið skipulagsferli,“ segir hann.

Þar sem svæðið er ekki friðlýst, fyrir utan hraunið sjálft sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum, eru aðgerðir þar ekki leyfisskyldar hjá Umhverfisstofnun. Stofnunin er umsagnaraðili og gefur ábendingar um hvernig megi gera hlutina. Sveitarfélög og landeigandi þurfi að framkvæma.