Samheitalyfið exemestan, sem nauðsynlegt er fólki með brjóstakrabbamein, hefur ekki verið fáanlegt hér á landi í fjóra mánuði eða frá því um miðjan maí. Fjölmiðlafulltrúi lyfjafyrirtækisins Actavis, sem flytur inn lyfið, segir í skriflegu svari við fyrirspurn RÚV að vonast sé til að ný sending komi til landsins á allra næstu dögum.
Þessa stundina sé verið að vinna að því að flytja það inn eins fljótt og hægt er en vandamál hafi komið upp við framleiðslu lyfsins með þeim afleiðingum að innflutningur hefur tafist.
Lára Guðrún Jóhönnudóttir er með brjóstakrabbamein og greindi hún frá því á Facebook í gær að frumlyfið aromasin hafi ekki verið fáanlegt hér á landi dagana 12. og 13. september. Hvorki hafi verið hægt að nálgast aromasin eða exemestan hér á landi í tvo daga.
Tugþúsunda munur er í verði á exemestan og aromasin en Sjúkratryggingar Íslands miða alla jafna að greiðsluþátttöku við verð á ódýrara lyfinu. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur óskað eftir samráðsfundi með Lyfjastofnun þar sem hún hyggst kanna hvers vegna á því standi að skortur á mikilvægum lyfjum sé ítrekaður.
Athugasemdir