Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að á meðan hjarðónæmi næst i heiminum munum við þurfa að glíma við faraldurinn.

Hann sagði að til þess að ná hjarðónæmi þurfi að leyfa veirunni að ganga áfram en á sama tíma koma í veg fyrir alvarleg veikindi viðkvæmra hópa. Þórólfur sagði ómögulegt að vita hversu langan tíma það tekur að ná hjarðónæmi en sagðist allt eins eiga von á því að það tæki allt frá nokkrum mánuðum upp í tvö ár.

„Við höfum þurft að vera tilbúin fyrir það óvænta,“ sagði Þórólfur og sagði að með bólusetningunni hefði verið þeirra von að hægt hefði verið að ná hjarðónæmi, en því er aðeins náð annað hvort með því að láta sýkinguna ganga yfir samfélagið eða með bólusetningu.

Hann sagði að þegar þau voru langt komin með bólusetninguna í lok júní hafi því stærsta spurningin verið hvort að það ætti að láta reyna á hjarðónæmið. Að opna samfélagið og slaka á takmörkunum.

Hann sagði að hann hafi alltaf verið undirbúinn fyrir það að eitthvað óvænt gæti gerst og það hafi gerst með útbreiðslu Delta-afbrigðisins og þegar bólusett fólk fór að smitast.

„Bólusetningin hefur komið í veg fyrir alvarleg veikindi, það er ekki nokkur spurning um það þannig það er ekki eins og við höfum ekki fengið neitt út úr þessari bólusetningu,“ sagði Þórólfur en að hann hefði gjarnan viljað að hún hefði komið betur í veg fyrir smit.

Ekki markmiðið að útrýma veirunni

„Það má ekki gleyma því að Delta-afbrigðið er miklu meira smitandi en fyrri afbrigði og veldur alvarlegri sjúkdómi,“ sagði Þórólfur.

Hann sagði að það mikilvægasta sé að koma í veg fyrir að of margir glími við alvarleg veikindi því spítalinn ráði ekki við það.

Hann sagði markmiðið ekki endilega vera að útrýma veirunni eða losa okkur við hana úr samfélaginu.

Þórólfur sagði tvennt þurfa að gera á þessum tímapunkti og það er að styrkja spítalakerfrið svo hægt sé að taka á móti þeim sem þurfa á innlögn á halda.

Hann sagði ekki endilega þörf á hörðum aðgerðum núna en ef að smitfjöldinn verður mikið meiri og innlagnir alvarlegra veika þá sé ekkert annað í stöðunni.

„En það er algert neyðarúrræði að gera það,“ sagði Þórólfur.

Þórólfur sagði það forgangsverkefni að gefa þeim sem fengu Janssen bóluefnið annað skammt og að eldra fólk og fólk með viðkvæma sjúkdóma fengi örvunarskammt en það væri ekki forgangsverkefni að bólusetja alla með þriðja skammtinum.

Munum alltaf fá ný afbrigði

Hann sagði að baráttan yrði þannig í framtíðinni að ný afbrigði koma fram og að það sé alltaf spurning hvernig bóluefnin svari þeim. Hann sagði að á meðan kórónuveirufaraldurinn geisar muni alltaf koma ný afbrigði en sagðist vona að þau verði ekki skæðari en Delta-afbrigðið.

„Þetta er ekki búið fyrr en þetta í búið í heiminum öllum,“ sagði Þórólfur og sagði að við þyrftum að komast að því hvernig lífi við viljum lifa á meðan það gerist.

Hvað varðar bólusetningar barna sagði Þórólfur að það væri nú búið að bjóða foreldrum 12 til 15 ára börnum bólusetningu.

Hann sagði að það þyrfti að tryggja betur landamærin og stoppa innflæði veirunnar þar eins vel og hægt er.

Þórólfur var spurður um skoðun sína á því að einhverjar takmarkanir yrðu settar á þau sem ekki eru bólusett. Hann sagði að það þyrfti að skoða bæði lagalega og lögfræðilega en sagði að það þekktist vel erlendis að setja, til dæmis, reglur um bólusetningu á fjölmennum viðburðum.

Hann sagði að hér á landi væri þá, sem dæmi, hægt að hafa einhverja ákveðna fjöldatakmörkun en svo væri hægt að leyfa fjölmennari viðburði gegn því að allir sem mæti séu bólusettir eða hafi sýkst af veirunni.

Í góðu sambandi við Svandísi

Þórólfur sagði að fólk hefði undanfarið verið duglegt að mæta í sýnatöku og það mætti sjá á gögnum að faraldurinn er ekki í veldisvexti, heldur línulegum vexti, og það væri að takast að tempra útbreiðsluna. Það væri aðeins spurning hvenær við myndum sjá tölurnar fara niður en á meðan þá þurfi að fólk að gæta að persónulegum sóttvörnum.

Þórólfur sendi heilbrigðisráðherra í liðinni viku ráðleggingar um framhaldið en ekki skýrar ráðleggingar um takmarkanir. Spurður hvers vegna hann fari þá leið núna sagði Þórólfur að við værum á nýjum stað í faraldrinum með útbreidda bólusetningu og væg einkenni og þannig séu fleiri þættir sem þurfi að taka tillit til.

„við erum búin að ganga í gegnum þetta og vitum hvað virkar. Það er hægt að fara bara upp í hillu og ná í minnisblað frá mér og segja „okei við gerðum þetta á þessum tímapunkti og það virkaði“ og stjórnvöld geta gert það alveg eins og ég en þau verða að taka tillit til heildarhagsmuna,“ sagði Þórólfur.

Hann sagðist vera í góðu sambandi við ráðherra og að hann geri tillögur en þær séu í ólíku formi núna en áður.

Hægt er að hlusta á viðtalið hér í heild sinni á vef Vísis.