Lands­réttur hefur mildað tveggja ára nauðgunar­dóm yfir Mourad Chaabia, fer­tugum karl­manni, sem sak­felldur var fyrir að hafa brotið kyn­ferðis­lega gegn konu á skemmti­stað í Reykja­vík árið 2015. Dómurinn var mildaður um sex mánuði, eða úr 24 mánuðum í 18 mánuði. 

Hélt konunni niðri 
Chaabia var á­kærður fyrir nauðgun, með því að hafa beitt konuna of­beldi og ó­lög­mætri nauðung þegar hann fékk hana með sér inn á salerni skemmti­staðarins, lokað og læst hurðinni, togað í hár konunnar, ýtt henni niður á hnén og þvingað hana til að hafa við sig munn­mök. Hann var einnig á­kærður fyrir að hafa stungið fingri í leg­göng konunnar gegn hennar vilja. Tveggja ára fangelsis­dómur var kveðinn upp í Héraðs­dómi Reykja­víkur í októ­ber 2017. Chaabia neitaði sök og á­frýjaði dómnum. 

Konan gerði lög­reglu við­vart um brot mannsins sömu nótt og þau áttu sér stað, eða að­fara­nótt sunnu­dagsins 12. apríl. Í skýrslu­töku sagðist hún hafa hitt Chaabia á dans­gólfinu og staðið í þeirri trú að hann hyggðist bjóða henni upp á drykk þegar hann hafi gengið með henni inn á salerni. Konan sagðist hafa farið sjálf­viljug inn á snyrtinguna en kvaðst ekki vita hvers vegna hún hafi gert það. 

Hún sagði manninn hafa beðið hana um að hafa við sig munn­mök, en hún neitað. Því næst hafi hann reynt að kyssa sig en hún snúið sér undan, og við það hafi maðurinn brugðist ó­kvæða við með því að taka í hnakka hennar, ýtt henni niður á hnén, hneppt frá buxna­klaufinni, tekið út á sér liminn og þvingað hana til munn­maka. Konan sagðist hafa reynt mót­spyrnu en ekki kallað á hjálp, en gefið frá sér ein­hver hljóð þegar hún veitti mót­spyrnuna. 

Sat í hnipri og skalf eins og hrísla 
Lög­reglu­maður sem tók á móti konunni kvað hana hafa verið í miklu upp­námi og skolfið eins og hríslu, auk þess sem hjúkrunar­fræðingur á neyðar­mót­töku Land­spítalans sagði hana hafa setið í hnipri, skolfið og liðið illa. 

Chaabia var yfir­heyrður næsta morgun þar sem hann sagðist hafa dansað við konuna og kysst hana, en neitaði því að nokkurt kyn­ferðis­legt hefði átt sér stað. Nokkrum dögum síðar breytti hann fram­burði sínum og viður­kenndi kyn­ferðis­legar at­hafnir, en sagði þær hafa verið með sam­þykki konunnar. 

Lands­réttur segir í niður­stöðu sinni að við á­kvörðun refsingarinnar þurfi að líta til tafa á með­ferð málsins, því brotið var framið árið 2015 en á­kæra ekki gefin út fyrr en 22 mánuðum síðar. 

„Ekki hafa komið fram skýringar á þeim töfum á máls­með­ferð, sem raktar verða til á­kæru­valdsins og er að engu leyti við á­kærða að sakast í þeim efnum,“ segir í niður­stöðunni en dóminn í heild má lesa hér.