Á næstu tveimur vikum munu 4.500 ungmenni á aldrinum 13 til 15 ára fá fræðslu um mörk, samþykki og kynferðislega áreitni. Stígamót unnu fræðsluna í samstarfi við Samfés, samtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi, og mun fara fram í félagsmiðstöðum um land allt. Fræðslan er liður í átaki Stígamóta um sjúka ást. 

Átakið var sett í annað sinn í dag. Átakið miðar að því að varpa ljósi á því hvað felst í heilbrigðum samböndum og hvað felst síðan í óheilbrigðum og ofbeldisfullum samböndum og muninn þar á. Markmið Sjúkást er að fræða ungmenni um mörk og samþykki með það að leiðarljósi að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi. Slagorð átaksins í ár er: 

„Ég virði mín mörk og þín“.

Í tilkynningu frá Stígamótum segir að fræðslan sé nauðsynleg, sérstaklega ef litið er til þess stafræna umhverfis sem ungmenni búa við í dag. Þar er, meðal annars, vitnað í niðurstöður nýlegrar rannsóknar þar sem kom fram að um helmingur stelpna í 10. bekk hafði sent ögrandi mynd eða nektarmynd af sér í gegnum stafræna miðla. 20 prósent þeirra leið eins og það væri gert undir þrýstingi annarra. 

Sjá einnig: Helmingur stúlkna í tíunda bekk verið beðinn um ögrandi mynd

Safna sögum um óheilbrigð sambönd

Við opnunarhátíð átaksins í dag voru viðstödd fulltrúar átta femínistafélaga úr framhaldsskólum, en alls taka virkan þátt í verkefninu í ár sautján framhaldsskólar. Þau taka þátt með því að, til dæmis, safna sögum um óheilbrigð sambönd frá skólafélögum, fræða samnemendur og setja af stað undirskriftasafnanir um aukna kynjafræði í sínum skólum. 

„Hann nauðgaði mér þó nokkrum sinnum því hann tók ekki nei sem svari því við vorum í sambandi og þá átti hann mig. Ég vissi ekki að þetta væri óeðlilegt fyrr en ég kynntist fyrstu ástinni minni sem sýndi mér hvað eðlilegt samband er,“ sagði Kristrún Guðmundsdóttir, nemandi við Menntaskólann í Reykjavík, við opnunarhátíðina í dag. 

Sagan er nafnlaus og eftir lestur hennar, bætti Kristún við: „Þetta er ein saga af óteljandi og þess vegna þurfum við Sjúkást átak“.

Fjórir þekktir einstaklingar leggja átakinu lið í ár. Þau halda öll úti vinsælum Instagram-reikningum. Það eru þau Sólborg, Aronmola, Binni Glee og Anna Lára Orlowska

Sjá einnig: Safnar skjá­skotum af á­reitni: „Er með drep í typpinu“

Nánari upplýsingar um átakið er að finna á sérstakri heimasíðu sem er tileinkað því. Verkefnið var upphaflega sett af stað í febrúar í fyrra. 

Sjá einnig: „Ég hefði aldrei haldið að þetta væri heimilis­of­beldi“ og „Hann þarf ekki að lemja þig til að vera vondur“