„Ég neita því ekki að ef maður leitar eftir þessu þá getur maður fundið þetta með því að þreifa fuglinn,“ segir Stefán Símonarson, framkvæmdastjóri Nesbús og formaður Félags eggjabænda.

Taldar eru miklar líkur á að 50-90 prósent íslenskra varphæna séu með skaðað bringubein, líkt og í ljós hefur komið víða erlendis að undanförnu, að mati Brigitte Brugger, dýralæknis hjá Matvælastofnun (MAST).

Ástæðan sé annars vegar sú að varphænur verpa 300 eggjum á ári að jafnaði, á meðan villtar hænur verpi um 20 eggjum á ári. Svo mikið kalk fari í að mynda eggjaskurn að það orsakar beinþynningu hjá hænunum. Þá hefur nýleg dönsk rannsókn leitt í ljós að stór egg eigi líka þátt í því að varphænur verði fyrir bringubeinsskaða.

Brigitte segir að dýrin þjáist vegna þessa:

„Þetta er sársaukafullt fyrir hænurnar því þetta eru beinbrot,“ segir hún.

„Við erum búin að fjárfesta gríðarlega í nýjum búnaði eggjabændur til að uppfylla nýjustu kröfur og bæta aðbúnað fuglanna,“ segir Stefán hjá Nesbúi. „Það vantar hins vegar miklu meiri rannsóknir og það verða allir að leggjast á eitt til að finna lausn sem fyrst,“ segir Stefán. Það sé bænda, ræktenda fuglanna og dýralækna að komast að því hvað hægt sé að gera.

Stefán telur að breyta þurfi ræktun varphæna hér á landi, minnka eggin eða stækka fuglana eða gera breytingu á fóðursamsetningu með meiri kalkupptöku.

Stefán segir að nýjustu upplýsingar um að eggin séu of stór og valdi bringubeinsskaða hafi komið eggjabændum í opna skjöldu og við þessu þurfi að bregðast öllu saman.