„Það er alveg á hreinu að frumkvæðið mun ekki koma frá ríkisstjórnarflokkunum eða Miðflokknum í þessum málum. Þess vegna þarf að halda þeim við efnið,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, um nýtt frumvarp um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða.

Frumvarpinu sem flutt er af þingflokki Viðreisnar auk Píratans Helga Hrafns Gunnarssonar og Helgu Völu Helgadóttur þingkonu Samfylkingarinnar, er ætlað að auka gagnsæi fjárhagsupplýsinga sjávarútvegsfyrirtækja.

Þannig er lagt til að útgerðarfyrirtæki sem ráða yfir einu prósenti eða meira af heildaraflahlutdeild skuli skráð á markað. Einnig er lagt til að skilgreining á tengdum aðilum verði rýmkuð verulega frá því sem nú er og að hámark aflahlutdeildar sem einstakur aðili eða tengdir aðilar geta ráðið yfir verði afmarkað með skýrari hætti. Þá er í frumvarpinu að finna ákvæði til að tryggja dreift eignarhald félaga sem fara yfir átta prósent heildaraflahlutdeildar.

Þorgerður Katrín segir að frumvarpið hafi verið í vinnslu í nokkurn tíma en mikilvægt sé að koma því á dagskrá nú enda um grundvallarmál að ræða.

„Við erum ekki bara að tala eins og mér finnst ríkisstjórnin vera að gera, heldur erum við að koma með tillögur. Það getur vel verið að þær verði óþægilegar og það verði mikið uppnám hjá útgerðinni. En þetta er algjörlega nauðsynlegt ef við eigum að byggja upp traust og trúverðugleika á þessari mikilvægu atvinnugrein,“ segir Þorgerður Katrín.

Hún segir að krafan um gegnsæi eignarhalds þýði ekki endilega að verið sé að koma í veg fyrir samþjöppun. Verið sé að koma í veg fyrir að eignarhald stórra fyrirtækja sé bara á höndum örfárra einstaklinga og fjölskyldna.

„En þetta er prinsippmál og þannig verða allir flokkar að nálgast þetta. Ef menn vilja bara óbreytt ástand þá skulu þeir bara segja það skýrt og skorinort. Þá eru farnar að myndast ákveðnar skýrar línur í íslenskri pólitík.“

Þá komi til greina að endurskoða nákvæmlega hvar mörk eignarhalds eigi að liggja varðandi skráningarskyldu á markað. Frumvarpið gerir ráð fyrir aðlögunartíma fyrir þau fyrirtæki sem í hlut eiga.

„Ef við komumst að samkomulagi þvert á flokka um þetta prinsipp getum við auðvitað farið í að ræða hvort hlutfallið eigi að vera minna eða meira. En þetta er algjört prinsipp að þegar menn eru komnir yfir tiltekinn hluta af auðlindinni verði menn að skrá fyrirtækið á markað.“

Þorgerður bendir einnig á að skilgreiningin á tengdum aðilum sé of óljós í dag. Það hafi meðal annars valdið Fiskistofu og eftirlitsaðilum erfiðleikum.

„Samhliða þessu þarf auðvitað að breyta auðlindaákvæðinu í stjórnarskránni. Mér sýnist núna stóri slagurinn fara að standa um það. Fólk er farið í hefðbundnar skotgrafir og það má greinilega ekki breyta miklu.“