Flug­vél Ry­anair þurfti að lenda á Stan­sted-flug­velli í Eng­landi á leið sinni til Dyflinnar í gærkvöldi eftir að miði með sprengju­hótun fannst inni á salerni hennar. Tveir voru hand­teknir vegna málsins.

Flug­vélin var á leið sinni frá Kra­kár til Dyflinnar þegar miðinn fannst. Því var á­kveðið að lenda henni fyrr, á Stan­sted-flug­velli í London og var kallað á að­stoð konung­lega breska flug­hersins vegna málsins. Þannig fylgdu tvær orrustu­þotur vélinni að flug­vellinum.

Lög­regla segir að ekkert grun­sam­legt hafi fundist við leit um borð í vélinni en að tveir menn hafi verið hand­teknir grunaðir um að hafa skrifað hótunina og stofnað fluginu í hættu. Mennirnir eru 26 ára og 47 ára en þeir eru nú í haldi lög­reglu.

Allri rann­sókn á vélinni er lokið og er henni öruggt að fljúga aftur. Þegar vélin lenti var hún flutt á af­skekktan stað á flug­vellinum þar sem far­þegarnir voru fluttir frá borði. Lög­regla stað­festir þá við BBC að allir hafi komist öruggir úr vélinni og að enginn hafi slasast.

Maður að nafni Andy Kirby deildi myndböndum af vélinni og orrustuþotunum þar sem þær lækkuðu flugið yfir London fyrir lendingu.