Nauðgunum fækkaði en kynferðisbrotum gegn börnum fjölgaði hér á landi frá árinu 2018 til 2020. Þetta kemur fram í samantekt á afbrotatölfræði lögreglu, en tölfræðin á að sýna hvernig Covid-19 setti mark sitt á tíðni afbrota.

Samkvæmt gögnunum voru nauðganir 263 árið 2018, 215 árið 2019, og 158 árið 2020. Þeim fækkaði því um fjórðung.

Þá voru kynferðisbrot gegn börnum 107 árið 2018, 86 árið 2019, og 130 árið 2020. Blygðunarsemisbrot voru 71 árið 2018, 122 árið 2019, og 96 árið 2020. Saman jukust því blygðunarsemisbrot og kynferðisbrot gegn börnum um 23 til 24 prósent.

Þjófnaðarbrot færðust í aukana, en innbrotum fækkaði á milli ára. Þjófnaðarbrot voru 3285 árið 2018, 3476 árið 2019, og 3503 árið 2020. Þá voru innbrot 1286 árið 2018, 1161 árið 2019, og 1059 árið 2020.

Fleira athyglisvert kemur fram í samantekt lögreglu. Til að mynda jukust ofbeldisbrot um átta prósent, og við nánari greiningu mátti sjá að heimilisofbeldisbrotum fjölgaði. Mest fjölgun var á brotum gegn friðhelgi einkalífs, en þeim fjölgaði um nærri þriðjung.

Hér má nálgast samantektina hjá lögreglunni.