Valgerður Þorsteinsdóttir, ung kona sem kærði kynferðisbrot, nauðgun, í Grímsey árið 2014, segist hafa upplifað sterklega hve erfitt var á þeim tíma að leita réttar síns og segja frá.

„Það kom mér mjög á óvart hve erfitt var að fara í yfirheyrslurnar,“ segir Valgerður í forsíðuviðtali helgarblaðs Fréttablaðsins á morgun.

„Mér var úthlutað réttargæslukonu en við tengdumst aldrei neitt. Allt andrúmsloftið í yfirheyrslunum var rosalega þurrt og óþægilegt. Mér leið alltaf eins og ég þyrfti að berjast fyrir því að reyna að sannfæra viðstadda um að ég væri ekki að ljúga, líka réttargæslukonuna.“

Valgerður segir að sér hafi liðið eins og enginn mannlegur þáttur hafi verið til staðar.

„Ég upplifði að það hefði verið hægt að vinna þessa vinnu miklu manneskjulegar en raunin varð og mér hefði fundist eðlilegra ef sálfræðingur hefði verið kallaður til.“

Hún segir að sér hafi fundist eins og hún væri komin aftur til miðalda. „Ég átti engan séns gegn kerfinu,“ segir Valgerður með miklum þunga.

Þá lýsir hún hvernig tilfinning það var að sitja í tíma í framhaldsskólanum sínum þegar lögmaður mannsins sem hún kærði til lögreglu sendi henni meiðyrðakæru í gegnum skilaboð á Facebook.

Valgerður segist hafa verið fjórtán ára þegar brotin hófust.