Karlmaður sem nauðgaði ungri konu á heimili hennar fékk ekki dóm þrátt fyrir að hafa játað sjálfur að hafa brotið á henni.

Katrín Von Gunnarsdóttir greinir frá málinu í Facebook færslu og veitir Fréttablaðinu góðfúslegt leyfi að deila frásögninni. Hún gagnrýnir réttarkerfið harðlega og veltir fyrir sér hvernig í ósköpunum þolendur eigi að leita réttar síns þegar tvær játningar frá geranda eru ekki nóg.

Fyrri játningin kom gegnum smáskilaboð á samfélagsmiðlum. „Ég nauðgaði þér Katrín, það er engin önnur leið. Þú varst sofandi og ég stakk honum inn,“ byrja skilaboðin hans en Katrín bendir á að hann hafi einnig viðurkennt fyrir sameiginlegri vinkonu þeirra að hann hafi brotið á henni. Þrátt fyrir þessa skýru játningu var málið fellt niður eftir níu mánuði í kerfinu og aftur eftir að hún kærði niðurstöðuna.

„Málið mitt var fellt niður með þeim rökum að „ég var ekki nógu hrædd“ á meðan þessu stóð. Ég kærði niðurstöðuna og í dag, 12 mánuðum eftir atburðinn, fékk ég að vita að kæran var endanlega felld niður og að það er ekkert sem ég get gert meira í þessu. Rökin í dag voru „orð á móti orði,“ skrifar Katrín.

„Hvernig í andskotanum er þetta orð á móti orði ef þolandi segir að gerandi nauðgaði sér og gerandi játar tvisvar að hafa nauðgað þolanda?!“

Þóttist vera sofandi

Brotið á að hafa gerst kvöldið eftir afmælisdag móður Katrínar sem lést árið 2013. Daginn áður hafi hún hringt grátandi í manninn sem hún hélt að væri vinur sinn og mætti hann heim til hennar næsta dag eftir djammið.

„Hann tók það skýrt fram áður en hann kom að hann vildi ekki stunda kynlíf með mér,“ lýsir Katrín. Fóru þau upp í rúm til að sofa og áður en Katrín vissi af var hann farinn að strjúka henni um lærið sem hún segir að hafi verið óþægilegt. Þóttist hún þá vera sofnuð í von um að hann myndi hætta. En hann hélt samt áfram af meiri ákafa og leið þá Katrínu illa enda hafði hún ekki áhuga á manninum.

„Ég man hvernig hann snerti mig og hvíslaði í eyrað á mér: „Segðu bara já eða nei, þú þarft ekki að vakna“. Með þessum orðum gerir hann það ansi skýrt að hann heldur að ég sé sofandi. Ég svaraði honum ekki enda leið mér mjög illa í þessum aðstæðum og þorði ekkert að segja.“

Katrín segist þá hafa lamast af hræðslu og ekki getað komið upp orði. „Honum var augljóslega skítsama um það hvort ég væri vakandi eða sofandi og nauðgaði mér á meðan ég „svaf“. Ég safnaði svo kjarki í það að snúa mér við svo hann næði ekki að halda áfram og þannig hætti þetta.“

Segist hún hafa heyrt hann fara að gráta í kjölfarið og spurt sjálfan sig upphátt hvers vegna hann hafi gert þetta. Tók hann upp vasahníf sem var í herberginu hennar til þess að skaða sig. „Þá fyrst næ ég að segja honum að sleppa hnífnum og drulla sér út.“

Tvær játningar

Eftir brotið sagði Katrín vinum sínum frá og fékk hún svo játninguna í skilaboðum frá manninum og heyrði að hann hefði játað brotið við sameiginlega vinkonu þeirra. Síðar hafi hann sagt fyrir dómi að skilaboðin hafi verið til þess að „róa hana niður“.

„Síðan hvenær róar það fólk niður að segjast hafa fokking nauðgað því??? Og hver eru þá fokking rökin fyrir því að hafa játað þetta fyrir vinkonunni??? Hvernig í andskotanum er þetta orð á móti orði ef þolandi segir að gerandi nauðgaði sér og gerandi játar tvisvar að hafa nauðgað þolanda?! Hvernig í andskotanum er réttlátt að fella niður kæru með tvær játningar frá geranda af því að þolandi var „ekki nógu hrædd“ á meðan þetta átti sér stað?!“

Í um fjóra til fimm mánuði eftir nauðgunina átti Katrín erfitt með að sofa og þurfti að nota svefnlyf sem hjálpuðu þó lítið. Hún byrjaði að skaða sig og þurfti að hitta geðlækni og byrja á þunglyndis- og kvíðalyfjum. Á meðan gengur gerandi hennar laus.