Landsréttur sneri í gær við dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli sem varðar nauðgun og brot í nánu sambandi. Í héraðsdómi hafði maður verið alfarið sýknaður af sökunum sem honum voru gefnar í ákærunni, en í Landsrétti hlaut hann þriggja ára fangelsisdóm.

Umrætt atvik átti sér stað á heimili fyrrverandi kærustu sinnar, sem er brotaþoli í málinu, í Kópavogi. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa um nótt í aprílmánuði 2019 ráðist að konunni með ofbeldi og haft samræði og önnur kynferðismök við hana án hennar samþykkis.

Áverkar víða um líkamann

Lýsingarnar í ákærunni eru eflaust ekki fyrir viðkvæma. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa þvingað konuna til munnmaka og haft við hana samræði í tvígang með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung. Þá á hann að hafa klipið hana, slegið hana ítrekað í andlit og líkama, bitið hana, rifið í hár hennar og tekið hana kverkataki þannig að hún átti erfitt með andardrátt.

Með þessu á maðurinn að hafa gert alvarlega og sársaukafulla atlögu að lífi, heilsu og vegferð konunnar, en hann á að hafa hætt þegar konan hafði ítrekað beðið hann að hætta.

Eftir atvikið leitaði konan á bráðamóttökuna og voru ljósmyndir af áverkum hennar gögn í málinu. Minnst er á umrædda áverka í ákærunni en þeir eru roði, mar, bit- og klórför, þar á meðal á baki, handleggjum, rassi, hálsi og andliti.

Töluvert meiri áverkar áður

Sjálfur lýsti maðurinn atburðum næturinnar þannig að þau hafi haft samræði, en hann vildi meina að hann hafi ekki þvingað hana til neins. Fyrir utan það gekkst hann við háttseminni sem honum var gefið að sök í ákærunni, en hélt því þó fram að hann hafi ekki rifið í hár konunnar heldur „haldið“ í það, og þá vildi hann meina að kverkatak hans hafi verið mjög laust.

Þau höfðu verið í kynferðislegu sambandi, en maðurinn hélt því fram að þau hafi „stundað kynlíf af þessum toga áður“. Og þá hafi hann haldið að hún væri fyrir „harkalegt kynlíf“.

Maðurinn vildi meina að konan hefði áður borið viðlíka áverka, eins og minnst var á hér fyrir ofan, eftir að þau höfðu stundað kynlíf, og töluvert meiri áverka reyndar. Þá hélt hann því fram að konan væri með sérlega viðkvæma húð og mjög lítið þyrfti til til þess að á henni sæi.

Hafi ekki skeytt neinu um vilja hennar

Landsréttur féllst ekki á að maðurinn hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að konan væri samþykk þeim kynferðismökum sem ákært var fyrir. Þvert á móti væri talið að hann hafi í engu skeytt um raunverulegan vilja hennar.

Þá þykir ótvírætt að konan hafi orðið fyrir slæmri lífsreynslu í þeim í samneytinu sem lýst er í dómnum og þykja lýsingar hennar einkar trúverðugar.

Líkt og áður segir hlaut maðurinn þriggja ára fangelsisdóm. Og þá var hann jafnframt dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, sem og áfrýjunarkostnað. En samanlagt ku það vera rúmlega fjórar milljónir króna.