Christina hefur verið er­lendur frétta­ritari hjá breska tíma­ritinu Sunday Times í 33 ár. Hún er höfundur níu bóka og er einna þekktust fyrir bókina I am Malala, um bar­áttu­konuna Malölu Yousafzai sem hún skrifaði með henni.

Nýjasta bók Lamb, Líkami okkar, þeirra víg­völlur eða Our bodies, their battlefi­eld, kom út árið 2019 og í ís­lenskri þýðingu árið 2020. Þar talar hún við konur sem eru þol­endur kyn­ferðis­legs of­beldis og af­hjúpar hvernig herir, hryðjuverkamenn og vígasveitir, beita nauðgunum sem stríðsvopni í nútímaátökum til þess að niðurlægja, hræða og stunda kynþáttahreinsanir, og það í auknum mæli núna.

„Ég skrifaði bókina núna því ég var reið. Ég hef verið frétta­ritari í 33 ár og hef að mestu skrifað um átök. Ég hef alltaf haft mestan á­huga á því hvaða á­hrif stríð hefur á konur því það er á­huga­vert. Ég hef minni á­huga á á­tökunum sjálfum og meiri á­huga á því hvernig fólk heldur lífi sínu saman í stríði, og það eru yfir­leitt konur sem sjá um það, en eru sjaldan viður­kenndar fyrir það.“

Kyn­ferðis­legt of­beldi aukist

Christina hefur ferðast víða um heim og rætt við konur í Rúanda, Filipps­eyjum, Afgan­istan, Bosníu og víðar og segir að ekki sé nægi­lega fjallað um myrka hlið þess sem konur upp­lifa í stríði.

„Það er notkun kyn­ferðis­legs of­beldis og grimmdar. Síðustu sex til sjö ár hef ég séð meira af þessu og mér fannst það skrítið. Því hef ég reynt að skilja þetta og talaði við fleiri um þetta, um hvað væri verið að gera í þessu og for­söguna. Ég ætlaði mér ekkert endi­lega að skrifa þessa bók, en ég var reið,“ segir Christina.

Hún segir að hún hafi fyrst byrjað að hugsa um þetta fyrir al­vöru þegar hún ræddi við jasída­konur sem íslamska ríkið hafði hneppt í þræl­dóm, á niður­níddum spítala á grískri eyju árið 2016.

„Ég vissi ekkert hvað hafði komið fyrir þær. Ég sá það bara í augum þeirra að eitt­hvað hræði­legt hafði komið fyrir. Það var ekkert ljós í augum þeirra og þær voru mjög af­tengdar því sem var að gerast,“ segir Christina, sem var stödd á grísku eyjunum í miðri flótta­manna­krísu.

Ég ætlaði mér ekkert endi­lega að skrifa þessa bók, en ég var reið

Hún segir að stuttu eftir það hafi hún ferðast til Nígeríu til að taka við­töl við konur sem Boko Haram hafði rænt og svo eftir það, árið 2017, var hún í Bangla­dess í Ró­hingja­krísunni.

„Þar voru konur teknar af heimilum sínum, bundnar við tré og hóp­nauðgað fyrir framan börnin sín. Þetta eru allt hræði­legar sögur en, eins og það leit út þá var ekkert verið að gera í því. Það var enginn kærður í neinum af þessum málum og ég skildi það ekki,“ segir Christina sem segir það hafa verið hvatann að því að skrifa bókina.

Til að sinna starfi sínu þarf Christina stundum að verja sig vel.
Mynd/Aðsend

Fleiri með­vitaðir um vanda

Hún segir enga lausn í sjón­máli en telur að fleiri séu, undan­farið, með­vitaðir um vanda­málið. En að þegar fjöldinn sé svona mikill og dæmin mörg flækist málið.

„Í Ró­hingja­krísunni flúðu 700 þúsund manns yfir landa­mærin á að­eins nokkrum mánuðum. Meira en helmingur þeirra var konur og börn og flestar konur sem ég talaði við þar höfðu ein­hverja slíka sögu að segja. Jasída­konurnar voru fleiri en þúsund. Boko Haram rændi tug­þúsundum stúlkna. Þetta er svo mikill fjöldi og var aug­ljós­lega kerfis­bundið. Þetta var ekki að gerast í ó­reiðu stríðsins, heldur var þetta að gerast því fólki var sagt að gera þetta. Það er enginn vafi á því að þetta er að gerast oftar og þetta er far­aldur í svo mörgum löndum,“ segir Christina.

Hún segir að fyrir því séu nokkrar á­stæður.

„Þetta er mjög skil­virkt vopn ef þú vilt niður­lægja óvin þinn og ná fram hefndum. Ef þú vilt hræða fólk og neyða það til að yfir­gefa heimili sín, þá virkar þetta og kostar ekkert. Nauðgun er ó­dýrari en Kalas­hni­kov-byssu­kúla, en stærsta á­stæðan, og þetta er það sem veldur mér mestri reiði, er að refsi­leysið er al­gert. Það er ekki verið að sækja neinn til saka og því líður ger­endum eins og þeir geti gert það sem þeir vilja. Það eru engar af­leiðingar,“ segir Christina.

Heldurðu að það megi að ein­hverju leyti rekja til þess að eðli á­taka hefur breyst?

„Já, al­ger­lega. Ef þú ferð aftur til seinni heims­styrj­aldarinnar þá voru flest fórnar­lömb stríðsins her­menn á víg­vellinum, ekki í miðri borg. Ný­leg átök og stríð hafa verið háð í miðjum borgum, eins og Mósúl eða Bagdad, og oft háð af aðilum sem ekki eru opin­berir, eins og her, heldur hryðju­verka­hópum eða upp­reisnar­mönnum sem ekki virða stríðs­lög.“

Christina segir að laga­lega hafi kyn­ferðis­legt of­beldi í raun verið á­litið stríðs­glæpur í um 100 ár, en það hafi ekki verið fyrr en árið 1997, eftir borgara­stríðið í Rúanda, sem fyrsta málið fór fyrir al­þjóð­lega stríðs­glæpa­dóm­stólinn í Haag.

Denis Mukwege á Panzi spítalanum í Austur-Kongó. Verðir frá Sameinuðu þjóðunum gæta hans alla daga.
Fréttablaðið/Getty

Hetjur í hryllingi

Í bókinni, þó að það séu sögur af hryllingi heimsins, er líka að finna hetjusögur sem geta gefið von.

„Eins og læknirinn Mukwege, hann rekur spítala í Austur-Kongó. Hann er kvensjúkdómalæknir og kom spítalanum upprunalega á fót því hann hafði áhyggjur af mæðradauða. En svo komu konur þangað sem hafði verið nauðgað, á mjög ofbeldisfullan hátt. Það hafði verið kveikt í kynfærum þeirra og hann hafði aldrei séð neitt þessu líkt. Hann hugsaði fyrst að þetta gæti ekki verið algengt, en svo fóru fleiri og fleiri konur að koma með álíka áverka og hann sá að þetta var kerfisbundið,“ segir Christina.

Mukwege hefur núna sinnt um 55 þúsund konum á spítalanum sínum sem hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi. Þar fá þær bæði aðstoð vegna líkamlegra afleiðinga ofbeldisins og andlegra og sálrænna afleiðinga. Þá býður hann konum, sem hefur verið útskúfað vegna ofbeldisins, að fá lán til að stofna fyrirtæki eða til að geta staðið á eigin fótum.

„Þessi maður hefur oftar en einu sinni stefnt lífi sínu í hættu. Hann hefur oft fengið líflátshótanir og þarf að búa á spítalalóðinni. Það eru verðir frá Sameinuðu þjóðunum sem gæta hans. Hann er eins og fangi,“ segir Christina.

En svo komu konur þangað sem hafði verið nauðgað, á mjög ofbeldisfullan hátt. Það hafði verið kveikt í kynfærum þeirra og hann hafði aldrei séð neitt þessu líkt.

Mukwege fékk friðarverðlaun Nóbels fyrir þremur árum fyrir þessa vinnu sína.

„Hann hélt þá að þetta myndi breytast, en það hefur ekkert breyst. Hann er enn að fá konur til sín og nú í auknum mæli. Síðast sagði hann mér frá sex mánaða stelpu og fjögurra ára dreng sem var komið með, þeim hafði báðum verið nauðgað. Það er erfitt að átta sig á þessum upplýsingum og því hvernig nokkur gæti notið þess á einhvern hátt að gera slíkt,“ segir Christina.

En það eru fleiri hetjusögur og hún nefnir Bakiru frá Bosníu, sem fékk nóg af því að sjá nauðgara ganga lausa.

„Henni var ekki bara nauðgað heldur táningsdóttur hennar líka, fyrir framan hana, og dóttir hennar kenndi henni alltaf um það því þær höfðu flutt aftur heim,“ segir Christina.

Bakira Hasecic fór að vinna að því með öðrum fórnarlömbum að finna nauðgara, hvar þeir eiga heima og taka myndir af þeim og afhentu þau lögreglunni og ákæruvaldinu upplýsingarnar.

„Nú er búið að sækja fleiri en 100 karlmenn til saka. Það er ótrúlegt,“ segir Christina af mikilli aðdáun.

„Fólk segir við mig reglulega að þetta gerist aðeins í löndum langt í burtu. En ég ferðaðist til fimm heimsálfa til að skrifa þessa bók, tólf landa. Þetta gerist alls staðar,” segir Christina.
Fréttablaðið/Getty

Vilja rétt­læti og viður­kenningu

Þannig að þó það sé langt um liðið, þá skiptir það miklu máli fyrir konur að fá ein­hvers konar rétt­læti, er það ekki?

„Jú, allar konur sem ég hef talað við. Þegar ég spurði þær hvað þær vildu, sögðu þær allar rétt­læti. En þær meintu ekki endi­lega allar það sama. Þær vildu ekki endi­lega fara með málið fyrir rétt og horfa framan í geranda sinn og fá hann sak­felldan. Oft meintu þær bara að fá viður­kenningu á því að þetta hefði komið fyrir þær,“ segir Christina.

Hún tekur sem dæmi svo­kallaðar „fróunar­konur“ [e. com­fort wo­men] sem voru teknar frá Filipps­eyjum og öðrum löndum sem börn og fluttar til Japans í seinni heims­styrj­öldinni til að þjónusta her­menn.

Það eru 75 ár síðan og þeim var nauðgað aftur og aftur. Þegar þær voru loks frelsaðar töluðu þær ekki um það, því það var mikil skömm í kringum þetta

„Það eru 75 ár síðan og þeim var nauðgað aftur og aftur. Þegar þær voru loks frelsaðar töluðu þær ekki um það, því það var mikil skömm í kringum þetta meðal fjöl­skyldna þeirra og sam­fé­lagsins. Það var ekki fyrr en ein þeirra steig fram fyrir um 25 árum og talaði um þetta að aðrar stigu fram. Núna eru þær orðnar gamlar, margar á ní­ræðis­aldri, og ekki margar eftir. Þær hafa næstum alla sína ævi þurft að búa við þöggun og skömm og eru ekki einu sinni nefndar í sögu­bókum. Þessar konur vita að þær munu deyja án þess að fá nokkurt rétt­læti. Í ein­hverjum til­fellum eru af­kom­endur þeirra að vinna að því en til­hugsunin um að lifa í 75 ár án þess að geta talað um þetta er hrylli­leg.“

Þetta gerist alls staðar

Kyn­ferðis­legt of­beldi hefur verið mikið í um­ræðunni undan­farin ár í tengslum við #met­oo-hreyfinguna, en ekki endi­lega þessi angi þess, sem Christina hefur fjallað og skrifað um í 30 ár. Hún segir að það megi ekki gleyma því að stríðs­nauðganir eigi sér stað alls staðar í heiminum.

„Fólk segir við mig reglu­lega að þetta gerist að­eins í löndum langt í burtu. En ég ferðaðist til fimm heims­álfa til að skrifa þessa bók, tólf landa. Þetta gerist alls staðar. Sjáum Þýska­land við lok seinni heims­styrj­aldarinnar. Þetta er vopn sem er notað í á­tökum um allan heim, af mis­munandi á­stæðum, trúar­legum, í ætt­flokka­deilum, efna­hags­legum, eða tengt hefnd.“

Þú hefur séð það versta sem þessi heimur hefur upp á að bjóða og talað við fólk sem hefur upp­lifað það. En hefurðu enn von?

„Fólk segir oft við mig að því finnist það sem ég geri niður­drepandi. Ég fer á alla þessu slæmu staði og sé hræði­lega hluti. Sem er satt. En að ein­hverju leyti fær maður meiri trú á mann­kynið því á öllum þessum slæmu stöðum finnur maður fólk sem er að gera ó­trú­lega hluti,“ segir Christina og segir Malölu gott dæmi um það.

„Ung stúlka sem stóð upp gegn tali­bönum og hætti lífi sínu. Það voru mikil for­réttindi að fá að vinna að bókinni. Ég sé það í starfi mínu að menntun stúlkna er eitt af því sem breytir mestu. Það var því frá­bært að vinna með henni að þessu, því það er það sem hún berst fyrir. Það er svo auð­velt að vera niður­dregin yfir hörmungum heimsins, en Malala sýnir manni að ein manneskja getur breytt miklu. Eins og hún sagði hjá Sam­einuðu þjóðunum: Eitt barn, einn kennari, ein bók og einn penni, geta breytt heiminum,“ segir Christina og að hún hafi þannig von vegna venju­legs fólks en að ríkis­stjórnir valdi henni sí­fellt meiri von­brigðum.

Christina skrifaði bókina I am Malala með Malala Yousafzai.
Fréttablaðið/Getty

Áhyggjur af Afganistan ekki nóg

Christina er sjálf nýkomin frá Afganistan og segir að það sé eitt af því sem hún og Malala deili reglulegum skilaboðum um og miklum áhyggjum. Hún segir sigur talibana niðurlægjandi fyrir Vesturlönd og hefur miklar áhyggjur af því að þessu verði sópað undir teppið.

„Þetta er svo mikil niðurlæging fyrir Vesturlönd. Allir peningarnir sem fóru í þetta og allir sem týndu lífi sínu, Afganar og vestrænir hermenn. Fyrir hvað? Svo að talibanar gætu tekið yfir aftur? Það er erfitt að ná utan um þetta. Ég fór til Afganistan og það var erfitt að komast þangað svo öll mín athygli og orka fór í það. Ég byrjaði að skrifa um leið og ég kom, en svo þyrmdi allt í einu yfir mig. Ég get ekki hugsað um neinn annan stað sem ég hef skrifað um sem hefur breyst svona mikið á stuttum tíma til hins verra. Allir sem ég þekkti þarna voru í felum eða flúnir,“ segir Christina.

Þetta er mest niðurdrepandi umfjöllun sem ég hef skrifað í mörg ár

Hún segir að það hafi komið sér á óvart hversu hratt talibanar unnu en segir að þó svo að hertakan sjálf hafi tekið um tíu daga, hafi þetta verið miklu lengur í undirbúningi.

„Það er langt tímabil þar sem voru teknar margar slæmar ákvarðanir og það er það sem er mest niðurdrepandi við þetta. Að vestrænir leiðtogar virðast gera sömu mistökin aftur og aftur í þessum aðstæðum. Sama hvort það er Afganistan, Íran, Líbía, eða Sýrland. Og mistökin má eiginlega alltaf rekja til þess að það var ekki hlustað á fólkið á staðnum eða á hvað það þurfti á að halda, en okkar hugmyndum þröngvað upp þá það. Þetta er mest niðurdrepandi umfjöllun sem ég hef skrifað í mörg ár.“

Lamb er væntanleg til landsins í næstu viku til að tala á málþingi UN Women á Íslandi. Þar mun Lamb fjalla um nýjustu bók sína, Líkami okkar, þeirra vígvöllur, eða Our bodies their battlefield.