Karl­maður hefur verið dæmdur af Héraðsdómi Norðurlands eystra í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga dóttur sinni.

Sam­kvæmt mála­vaxta­lýsingum í dómi gisti stúlkan reglu­lega hjá ömmu sinni á Akur­eyri og fór faðir hennar þangað að sækja hana og ók með hana í gegnum Vaðla­heiðar­göng á­leiðis heim til sín.

Á leiðinni káfaði maðurinn á kyn­færum dóttur sinnar utan­klæða, ók svo út af þjóð­veginum og að malar­námu þar sem hann hélt of­beldinu á­fram, fór inn fyrir föt hennar, káfaði á brjóstum og setti fingur inn í kyn­færi hennar.

Hann hélt svo á­fram akstri þar til heim til hans var komið og hélt þar upp­teknum hætti gegn dóttur sinni þar til hún kvartaði undan ó­gleði.

Vinkonan ók í skyndi á staðinn

Stúlkan hringdi svo í vin­konu sína sem var á leið í bíl frá Akur­eyri til Reykja­víkur með kærastanum sínum. Var á­kveðið að þau snéru rak­leitt við og kæmi og sækti hana.Þegar parið kom að heimili föðurins kom brota­þoli hlaupandi til þeirra og grét í aftur­sæti bílsins alla leið til Akur­eyrar.

Ekið var með brota­þola beint á lög­reglu­stöðina á Akur­eyri. Lög­reglu­maður ræddi við hana í aftur­sæti bílsins að hennar ósk en hún sagðist helst vilja fá ráð­gjöf þar frekar en fara inn á lög­reglu­stöð.

Hafði ó­vart „farið með höndina í klofið“

Þegar lög­reglan sótti föðurinn daginn eftir brotin, lét hann þess getið áður en þeir til­kynntu honum fyrir hvað hann var hand­tekinn, að hann hefði kannski ó­vart „farið með höndina í klofið“ á dóttur sinni.

Þrátt fyrir að hafa látið þessi orð falla við hand­tökuna, neitaði faðirinn sök fyrir dómi. Hann kannaðist þó við að hafa sett hönd sína á læri hennar í bílnum en það gerði hann af gömlum vana. Hann gerði það iðu­lega þegar konan hans var með honum í bílnum. Hann kannaðist einnig við að hafa faðmað dóttur sína þegar heim var komið. Hafi hann hins vegar snert kyn­færi dóttur sinnar utan­klæða eða snert brjóst hennar hefði það verið ó­vart.

Mátti vera ljóst að dóttirin vildi ekki kynlíf

Í dóminum er fjallað ítar­lega um hvort um nauðgun hafi verið að ræða. Fram kemur að stúlkan hafi sjálf af­klæðst í bílnum og svarað játandi beiðni föður síns um að fá að snerta kyn­færi hennar. Að­spurð sagðist hún ekki hafa þorað öðru.

Að mati dómsins var hátt­semi mannsins ekki með vilja stúlkunnar heldur þvert á móti. Honum hefði mátt vera ljóst að dóttir hans vildi ekki stunda með honum kyn­líf. Var hann því sak­felldur fyrir nauðgun og auk þess fyrir sifja­spell, kyn­ferðis­lega á­reitni og brot í nánu sam­bandi.

Mat dómurinn frá­sögn brota­þola trú­verðuga, bæði í skýrslu­tökum hjá lög­reglu og fyrir dómi.

Frá­sögn föðurins hafi á hinn bóginn verið ó­trú­verðug og var hann dæmur til þriggja og hálfs árs fangelsis­vistar og til að greiða dóttur sinni tæpar 2,9 milljónir króna í miska­bætur.

Hér má lesa dóminn í heild.