Vatnajökulsþjóðgarður var í dag stækkaður um það sem nemur 0,5 prósent af stærð Íslands. 560 ferkílómetrar af náttúruperlum, svo sem Herðubreið — drottning íslenskra fjalla, eru þar með komnir undir vernd þjóðgarðsins.

Svæðið sem er nú hluti af þjóðgarðinum hefur tilheyrt Herðubreiðarfriðlandi frá árinu 1974. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra undirritaði reglugerð í dag sem fellur svæðið inn í þjóðgarðinn. Stækkunin er að hluta til vegna umsóknar yfirvalda um tilnefningu Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá UNESCO og mun niðurstaða nefndarinnar um umsóknina liggja fyrir þann 5. júlí næstkomandi.

Drottningin fær þann sess sem hún á skilið

Í samtali við Fréttablaðið segir Guðmundur Ingi að stækkunin endurspegli vel þá fjölbreytni sem hálendið norðan Vatnajökul hefur upp á að bjóða. „Þetta er gríðarlega fallegt og fjölbreytt svæði. Herðubreið, sem er drottning íslenskra fjalla, er færð undir þjóðgarðinn sem gefur henni þann sess sem hún á skilið,“ segir Guðmundur. Eins nefnir hann að lindasvæði eins og Herðubreiðarlindir og ósnortin víðátta hálendisins sé nú undir þjóðgarðinum.

Fjölmennt og góðmennt var við athöfnina í dag. Undirritun reglugerðarinnar fór fram við Hellubreiðarlindir í dag.
Mynd/UAR

Ásamt því að stækka þjóðgarðinn segir Guðmundur að fjármagni verði varið í aukna landvörslu ásamt því að bæta merkingar og gönguleiðir á svæðinu. Guðmundur segir að til þess sé horft að nýta aukið fjármagn sem varið hefur verið til náttúruverndar. „Við höfum verið með það á fjármálaáætlun að auka fjármagn til náttúruverndar og auka fjármagn til landvörslu.

„Fyrir hverja krónu sem fer í náttúruvernd eru 23 krónur sem skila sér aftur til samfélagsins.“

Það þarf að bæta þessi innviði sem þurfa til að mæta aukinni umferð ferðamanna,“ segir Guðmundur, og nefnir sem dæmi að bæta þurfi aðgengi að salernisaðstöðu á fjölsóttum ferðamannastöðum. Hann segir að það fylgi ferðamönnum aukið álag á náttúruminjar og að það sé mikilvægt að bregðast við og stýra umferð.

Guðmundur Ingi og Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri í umhverfis- og auðlindarráðuneytinu, undirskrifa reglugerð um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs.
Mynd/UAR

Stefnt að friðlýsingarátaki

Aðspurður hvort að stefnt sé að frekari friðlýsingum segir hann að svo sé. „Við erum að vinna í því að stofna þjóðgarð á miðhálendinu og það er sérstök nefnd þingmanna og sveitarstjórnarfólks að vinna að því. Það er hluti af því átaki að auka friðlýsingar að stækka þjóðgarðana okkar, auk þess að friðlýsa minjum á grundvelli rammaáætlunar og svokallaðra náttúruverndaráætlana,“ segir Guðmundur og bætir við að hann vonast til að sjá fleiri friðlýsingar í ár og komandi árum.

Guðmundur Ingi ásamt landvörðum á svæðinu.
Mynd/UAR

Hann segir að átaki í friðlýsingum fylgi fjármagn í náttúruvernd. Nefnir hann rannsókn sem gerð var að hans ósk um efnahagsleg áhrif friðlýsingar. „Meginniðurstaða hennar var að fyrir hverja krónu sem fer í náttúruvernd eru 23 krónur sem skila sér aftur til samfélagsins. Þetta skilar sér vegna þess að ferðamenn sækjast í þetta og að aðstaða byggist upp í kringum þetta. Gott dæmi er t.d. Snæfellsjökulsþjóðgarður.“

Næst á dagskrá segir Guðmundur að séu vatnsföll sem mörkuð voru til friðlýsingar með rammaáætlun. Þess fyrir utan nefnir hann Þjórsárdal og Reykjadal í Ölfusi og bætir við að einbeiting sé á þau svæði þar sem umferð ferðamanna er í hæsta lagi.