Þær miklu skemmdir sem orðið hafa á íslenskri náttúru í kjölfar vaxandi fjölda ferðamanna hafa leitt til neikvæðra áhrifa á upplifun þeirra sem hingað ferðast. Þá eru Sunnlendingar neikvæðari en aðrir gagnvart áframhaldandi fjölgun ferðafólks til landsins og telja landshlutann að þolmörkum kominn.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ferðamálaráðherra um þolmörk ferðamennsku á Íslandi. Í skýrslunni leggur hún til að þróaður verði verkferill sem gengur meðal annars út á að marka svæðum þolmörk með virku samráði við viðkomandi hagsmunaaðila. 

„Ef niðurstöður fyrir Suðurland eru skoðaðar í heild er ljóst að álag af ferðamennsku er farið að reyna á þolrif íbúa og ferðamanna, sem og á náttúru svæðisins og innviði. Rúmlega 40% íbúa þykir ferðamannafjöldinn á sumrin of mikill og 40% íbúa telja að landshlutinn geti ekki tekið á móti fleiri ferðamönnum. Sunnlendingar skera sig úr íbúum annarra landshluta í þeirri skoðun sinni,“ segir í skýrslunni. 

Landinn skellir skuldinni á stjórnvöld

Að auki séu viðhorf ferðamanna neikvæðari á vinsælum ferðamannastöðum á borð við Gullna hringinn og Jökulsárlón. Tekið er fram að sum svæði séu orðin það illa leikin að þau séu komin í hættu, líkt og Umhverfisstofnun hefur bent á.

„Stígar eru almennt illa farnir og mikið er um villustíga, traðk og gróður og jarðvegsrof, einkum á Geysi og Gullfosssvæðinu, þar sem gróður er viðkvæmur og jarð- vegur gjarnan blautur. Við bætist að Gullfoss og Geysir eru nálægt hálendisbrúninni þar sem vaxtartími gróðurs er stuttur. Skemmdirnar virðast hafa neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna.“

Þá er tekið sérstaklega fram í skýrslunni að heimamenn skelli skuldinni frekar á stjórnvöld en ferðafólkið sjálft, hvort sem um sé að ræða vandamál tengdum umferðartöfum, þrengslum, vandræðum í opinberum rýmum, sóðaskap, slæmrar umgengni, slæmu ástandi á innviðum eða öðrum. Gremjan beinist fyrst og fremst að skipulagi og aðgerðaleysi þeirra sem eigi að taka á málum. 

Sumum svæðum verði haldið utan alfaraleiða 

Þórdís segir að þrátt fyrir að gripið hafi verið til ýmissa aðgerða á undanförnum árum þurfi að vinna að markvissari stýringu á fjölda, aðgengi og dreifingu ferðamanna til framtíðar. Vinna sé þegar hafin við að ríkari heimildir liggi fyrir til stýringar ferðaþjónustu. Þá þurfi að greina einkenni og eðli þeirrar ferðamennsku sem starfrækt sé í viðkomandi landshluta og ákvarðanatökur um hvaða svæði eigi að taka á móti fjölda ferðafólks og hvaða svæðum verði haldið utan alfaraleiða.   

„Í framhaldinu er skilgreint hvort og hvaða aðferðir henta til aðgangs- og álagsstýringar og dreifingar ferðamanna á hverju svæði fyrir sig. Þáttur í því ákvörðunarferli er skýr stefna áfangastaða ferðamanna með tilliti til ferðamennsku, m.a. út frá eðli staðanna og upplifunarinnar sem þeir eiga að bjóða upp á. Stefnan er jafnframt forsenda þess að vinna við mótun viðmiða um ásættanlegar breytingar og þolmarkarannsóknir nýtist sem skyldi. Þá tekur við innleiðing álagsstýringar og innviðauppbygging eins og við á.“

Skýrslan í heild.