Víkna­slóðir á Norð­austur­landi eru tví­mæla­laust á meðal skemmti­legustu göngu­svæða á Ís­landi. Þarna eru sér­lega lit­rík fjöll sem tróna á milli ið­grænna og djúpra fjarða. Einn af þeim er Loð­mundar­fjörður sem er með af­skekktustu fjörðum á Ís­landi þótt þangað sé hægt sé komast akandi á sumrin.

Í austan­átt getur verið þoku­sælt í Loð­mundar­firði en í sunnan- og vestan­átt er veðrið ó­víða betra. Fyrir botni fjarðarins norðan megin eru Loð­mundar­skriður sem einnig kallast Stakka­hlíðar­hraun. Þótt út­litið geti minnt á hraun eru þetta menjar eftir eitt stærsta berg­hlaup sem orðið hefur á Ís­landi.

Skúmhattardalsbrík í baksýn.
Mynd/Tómas Guðbjartsson

Undir fjallinu Skúm­hattar­brík losnaði risa­stór berg­fylla sem steyptist niður næstum 6 km leið að botni fjarðarins. Þetta voru engar smá náttúru­ham­farir því flatar­mál berg­hlaupsins er 8 km2 og fall­hæðin allt að 700 m. Til að sjá Loð­mundar­skriður vel verður að aka á jeppa eða ganga upp norður­hlíðar Loð­mundar­fjarðar. Þar opnast risa­stór fjalla­salur lit­ríkra lípa­rít­fjalla þar sem Skúm­hattar­dals­brík og Bungu­fell eru í aðal­hlut­verkum.

Inn á milli ó­teljandi hóla leynast síðan tjarnir og lækir með kaf­loðnum bökkum. Flóran er afar fjöl­breytt líkt og fugla­líf í kringum tjarnirnar. Þarna finnst perlu­steinn sem er sjald­séð gler­kennt af­brigði af lípa­ríti en við hitun þenst vatnið í honum út og myndar gler­froðu sem svipar til vikurs og er stundum kallað per­lít.

Eyrarrós er víða í Loðmundarskriðum. Hér er horft í átt að Kækjuskörðum.
Mynd/Tómas Guðbjartsson

Það er hægt að nota sem ein­angrunar­efni í hús en í kringum 1960 var þetta svæði rann­sakað með það fyrir augum að opna þarna námur og flytja út perlu­stein. Sem betur fer varð ekki af þeim á­formum, enda Loð­mundar­skriður ein­hver helsta náttúru­perla Austur­lands. Ef vel er að gáð sjást þarna enn menjar af gömlum rann­sóknar­vegum sem vindar og vatn rembast við að útmá.

Upp af Loð­mundar­skriðum er frá­bær göngu­leið yfir í Borgar­fjörð eystri sem kennd er við Kækju­skörð. Ó­hætt er að mæla með þessari göngu en efst býðst ó­gleyman­legt út­sýni yfir Víkna­slóðir og á leiðinni niður sést í Skúm­hött og sjálfan Hvít­serk. Ganga úr Loð­mundar­firði yfir Kækju­skörð tekur daginn en sprækt göngu­fólk getur hæg­lega gengið út Borgar­fjörð eystri, alla leið að Bakka­gerði.