Mikil hefð hefur verið fyrir sundlaugaferðum í gegnum tíðina á Íslandi enda víðast nóg af heitu vatni. Heita vatnið er mikil blessun í köldu landi eins og Íslandi og varð bylting í húshitun með hitaveitu.


Ísland skrúfar frá sjarmanum ekki síst þar sem heita vatnið og náttúran falla saman í eitt og sífellt fleiri sækja náttúruböð heim. En hvert er aðdráttarafl heita vatnsins fyrir ferðamenn? Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri svarar spurningunni um hvers virði heita vatnið er fyrir Ísland sem ferðamannastað.

„Þetta er mjög áhugaverð spurning en ég veit ekki til þess að það sé búið að magntaka þessi atriði. Maður sér það bara í ferðaþjónustunni hvað þessar laugar hafa mikið aðdráttar­afl en ég þekki enga rannsókn sem kemur inn á þetta,“ segir hann.

„Ef litið er yfir túrismann á Íslandi er fjárfestingin, fyrir utan hótelbyggingar, í svona verkefnum kannski hvað mest,“ segir hann og bendir á nýja fjárfestingu fyrir austan en Vök baths, náttúrulaug við Urriðavatn nærri Egilsstöðum, var opnuð í síðasta mánuði. Sjóböðin við Húsavík eru dæmi um aðra nýlega fjárfestingu en þau voru opnuð í fyrra og Krauma í Borgarfirði hóf síðan rekstur 2017.

Fleiri náttúruböð eru væntanleg bæði í borg og sveit; Fjallaböð eru í bígerð í Þjórsárdal og nýr baðstaður og heilsulind bætast við Kársnesið árið 2021. Flestir þekkja síðan Bláa lónið og velgengni þess og Jarðböðin við Mývatn hafa enn fremur komist rækilega á ferðaþjónustukortið sem og Laugarvatn Fontana.„Þarna er vaxtarbroddurinn, alveg klárlega. Ég veit ekki betur en að þessum fyrirtækjum gangi vel og þetta sé að standa undir fjárfestingunni,“ segir Skarphéðinn.

Náttúruböðin vinsælasta afþreyingin

Í þessum laugum rennur saman í eitt náttúran og áhugi ferðamanna á jarðhita. Þó heita vatnið hafi ekki verið metið í krónum og aurum leiddi nýbirt könnun Ferðamálastofu í ljós að náttúruböð voru vinsælasta afþreying erlendra ferðamanna árið 2018 en 56,8% nýttu sér náttúruböð. Spa­meðferð er næst á listanum en 47,2% létu dekra við sig og sund er í fjórða sæti með 37,7%.

Ættu Íslendingar að vera að gera eitthvað meira með þennan áhuga ferðamanna á náttúruböðum og laugum?„Það er alveg hellingur sem er gerður í kringum þetta en það er engin spurning að það eru sóknarfæri í kringum svona „spa“ og vellíðan,“ segir hann.

Mikill laugamaður

Aðspurður segist Skarphéðinn sjálfur vera mikill laugamaður. „Ég er mjög hrifinn af þessari menningu. Ég er nýbúinn að ferðast um Vestfirði og ég held ég hafi farið í laug á hverjum degi,“ segir hann en daginn áður en samtalið fór fram laugaði hann sig í heitu pottunum í Drangsnesi. „Það er mjög skemmtilegt fyrirbæri; það eru þrír pottar niðri við sjávarmálið og það var fullt af fólki þarna. Ég fór í Krossneslaug daginn eftir en hún er alveg með ólíkindum. Þar var margt fólk. Daginn þar á undan var ég í Heydal í Mjóafirði en þar er líka laug. Á öllum þessum stöðum var fólk sem lét sér líða vel og hvíldi lúin bein eftir að hafa verið að þvælast í gönguferðum eða hvað það hefur verið að gera.“

Íslendingar telja gjarnan laugarferðir til lífsgæða og erlendu ferðamennirnir virðast skynja þetta líka.„Til viðbótar er félagslegi þátturinn,“ segir Skarphéðinn um baðferðirnar. „Þarna hittist fólk sem þekkist ekki neitt og spjallar saman. Þannig eru laugarnar.“

Til viðbótar við uppbyggingu síðustu ára á náttúruböðum ýmiss konar eru tugir náttúrulauga um land allt í mismunandi ástandi. Sumar hafa verið byggðar upp á meðan aðrar eru ónothæfar eða ekki aðgengilegar almenningi. Einhverjar laugar eru þekktar úr Íslendingasögunum og hafa því landar okkar fyrr á öldum þekkt kosti þess að baða sig í heitu vatni en laugar voru líka notaðar til þvotta.

Fréttablaðið/Anton Brink

Örvaði lítt til óklæddrar útivistar

Á söguöld voru laugar notaðar til baða samkvæmt Íslendingasögum, Sturlungu og Biskupasögum. Freysteinn Sigurðsson jarðfræðingur gerði skemmtilega yfirlitsskrá yfir sögulegar laugar í byggð fyrir Orkustofnun þar sem fram kemur að laugar hafi frá upphafi landnáms verið notaðar til baða. Það er rétt hægt að ímynda sér hversu góð tilfinning það hefur verið að komast í heitt bað eftir hrakningar á heiðarvegum á hestum, á tíma þegar það var ekki sjaldgæft að fólk yrði hreinlega úti.

„Sumar laugar virðast hafa rúmað nokkurn mannfjölda og verið samkomustaðir til skemmtunar líkt og sólarstrandir nútímans þar sem glaumgosar (t.d. Kjartan Ólafsson) og glæsikvendi (t.d. Guðrún Ósvífursdóttir)“ voru, stendur í skránni en laugin sem þau sóttu var ein sú þekktasta, Sælingsdalslaug við norðanverðan Hvammsfjörð.Þvottalaugarnar þjónuðu líka þessu samkomuhlutverki, allavega á 18. öld, samkvæmt Eggerti Ólafssyni og Bjarna Pálssyni. Á þeirri öld var kuldaskeið á landinu sem eins og Freysteinn ritar, „örvaði lítt til óklæddrar útivistar“ en galdratrúin á 17. öld og heittrúarstefnan á 18. öld „réðu í hugum og hjörtum þjóðarinnar, sem stemmdi gegn öllum strípagangi úti á víðavangi“.


Væntanlega væri hægt að byggja upp fleiri laugar á fornum og nýjum slóðum. Reykjadalur er dæmi um stað þar sem aðstaða hefur verið bætt en stöðugur straumur ferðafólks er þar a.m.k. á sumrin enda rúmar áin marga, öfugt við smærri náttúrulaugar.Í baðspor sögunnarDæmi um forna laug þar sem vel hefur tekist til við að skapa nýjan áfangastað er Grettislaug á Reykjaströnd í Skagafirði, þar eru reyndar tvær laugar, önnur stærri og hin minni. Nú hlýja ferðamenn sér á sama stað og Grettir yljaði sér eftir að hafa synt til lands úr Drangey.Fleiri baðstaðir hafa sprottið upp af gömlum rótum; nú baða Íslendingar sig við ljósa sandströnd í Nauthólsvík með góðri aðstöðu til pottaferða. Guðlaug á Akranesi hlýjar sjósundsfólki á Langasandi.

Stöðum sem þessum gæti fjölgað. Reykjavíkurborg skipaði fyrir nokkrum árum starfshóp til að móta framtíðarsýn um sundlaugar Reykjavíkur til næstu tuttugu ára. Leiðarljós framtíðarsýnarinnar var lífsgæði borgarbúa og sérstaða Reykjavíkurborgar og tækifæri sem áfangastaður ferðamanna.Í skýrslunni sem starfshópurinn skilaði frá sér árið 2013 var mælst til „að hugað verði að annars konar lausnum og nýtingu á heita vatninu til baða en hefðbundnum sundlaugum í borginni, til dæmis náttúrulaugum af ýmsu tagi, hafnarlaug, uppsprettum, sjósundsaðstöðu og fleiru“.

Efst á lista í fjárfestingar­áætlun hópsins var viðbygging við Sundhöllina sem nú hefur orðið að veruleika.Fyrir örfáum árum hefðu fæstir trúað því að strandlíf gæti orðið hluti af tilveru landans. Núna virðast möguleikar til baðferða nánast endalausir og það lítur út fyrir að laugamenning Íslendinga muni bara styrkjast í sessi á komandi árum.

Heita vatnið í tölum

  • Til að fylla baðkar þarf um 100 lítra af hitaveituvatni og álíka mikið af köldu vatni. Í Reykjavík kostar þetta magn af heitu vatni í kringum 14 krónur.

  • Íslensk heimili nota árlega að meðaltali 4-5 tonn af heitu vatni á hvern fermetra húsnæðis. Stærsti hlutinn fer í húshitun, eða um 90% af notkuninni.

  • Nærri 100 sundlaugar eru á landinu samkvæmt vefnum Sundlaugar.is og eru þá ótaldar einhverjar smærri laugar og skólalaugar. 17 laugar eru skráðar á höfuðborgarsvæðinu, 10 á Vesturlandi, 12 á Vestfjörðum, 8 á Norðurlandi vestra, 18 á Norðurlandi eystra, 10 á Austurlandi, 17 á Suðurlandi og 5 á Reykjanesi.

  • Náttúruböð voru vinsælasta afþreyingin hjá erlendum ferðamönnum 2018 en 56,8% nýttu sér þjónustu þeirra og 37,7% fóru í sund en sundferð var í fjórða sæti afþreyingarlistans.

  • Í Róm voru um 170 baðhús á 1. öld f. Kr. og fór fjölgandi. Keisararnir Neró, Títus, Trajanus, Caracalla, Diocletianus og Konstantínus mikli létu allir byggja stórfengleg baðhús. Stærstu baðhúsin gátu tekið á móti allt að 4000 gestum í einu.

  • Árið 2018 komu 2.275.700 gestir í sundlaugarnar í Reykjavík. Fyrstu sex mánuðina í ár hafa komið 1.173.000 gestir í laugarnar, 40.000 fleiri en á sama tíma í fyrra.

  • Einhverjar nýjustu og flottustu vatnsrennibrautir á landinu eru Trektin og Flækjan í sundlauginni á Akureyri, sem trekkja að margt ferðafólk. Hæð á uppgönguturni er 14 metrar, þvermál röranna er 90-120 cm og heildarlengd 135 metrar. Heimild: Veitur.is, Visindavefur.is, Akureyri.is, Ferðamálastofa, ÍTR