Stjórnskipun Félag íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) hefur ritað Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) kæru vegna skipunar Félagsdóms, sem stéttarfélagið telur að brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

FÍN telur að það fyrirkomulag í íslenskum lögum að Hæstiréttur tilnefni meirihluta dómara Félagsdóms feli í sér brot á reglu mannréttindasáttmálans sem ætlað er að tryggja sjálfstæðan, óháðan og óvilhallan dómstól.

Kæran byggist á því að FÍN og félagsmaður þess hafi í dómsmáli, sem rekið var fyrir Félagsdómi nýverið, ekki hlotið réttláta málsmeðferð fyrir dómstólnum, líkt og lögfest er með mannréttindasáttmála Evrópu.

Dómsmálið sækir FÍN gegn íslenska ríkinu. Bent er á að samkvæmt lögum séu þrír af fimm dómurum Félagsdóms skipaðir samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar.

Vísað er til þess í kærunni að GRECO, alþjóðleg spillingarnefnd, hafi haft uppi efasemdir um skipunarferlið í skýrslu sem gefin var út í mars árið 2013.