Ein af mörgum spurningum sem Ís­land stendur frammi fyrir vegna vaxandi upp­gangs í ferða­þjónustu er hvaðan aukið fjár­magn til verndunar við­kvæmra staða skuli koma og hvort von sé á aukinni að­gangs­stýringu að náttúru­perlum. Óskar Magnús­son land­eig­andi segir að sá tími gæti verið handan við hornið að ferða­menn þurfi með fyrir­vara að kaupa að­gang að náttúru­perlum.

Einn helsti segullinn á að út­lendingar streyma til landsins er ósk um kyrrð og frið. Margir vilja upp­lifa þau for­réttindi að dvelja í fá­menni á ein­stökum og ó­snortnum stöðum að því er rann­sóknir sýna. Á sama tíma stefnir í met­fjölda ferða­manna, gjarnan á ferð í við­kvæmri náttúru landsins.

Isavia birti í gær far­þega­spá sem gerir ráð fyrir 5,7 milljónum ferða­manna um Kefla­víkur­flug­völl í ár. Spáin hefur á nokkrum vikum hækkað um rúm­lega milljón ferða­menn. Má búast við að við­kvæmar náttúru­perlur verði fyrir auknu hnjaski með vaxandi um­ferð.

Frétt Frétta­blaðsins um söluna á Fjaðrár­gljúfri hefur vakið at­hygli og hefur blaðið rætt við heima­menn sem telja að einn hvati kaupanna kunni að vera fyrir­ætlun um gjald­töku. Um­hverfis­stofnun neyddist til að loka gljúfrinu vegna á­gangs ferða­manna um tíma þegar um­ferð stór­jókst í kjöl­far þess að popp­stjarnan Justin Bieber heim­sótti gljúfrið. Margir gagn­rýndu þá á­kvörðun á sínum tíma.

Færst hefur í vöxt að ferða­menn þurfi að greiða sér­stak­lega fyrir að­gang að á­huga­verðum stöðum. Ríkið braut sjálft blað með því að taka upp gjald­töku við bíla­stæðið á Þing­völlum. Dæmi um aðra gjald­töku­staði eru við fossinn Faxa, við Helga­fell skammt frá Stykkis­hólmi og Selja­lands­foss. Þá bjóða sumar gjald­skyldar heim­sóknir upp á leið­sögn, svo sem í Raufar­hóls­helli.

Við Skógafoss í síðustu viku. Sprenging er fram undan í fjölda ferðamanna og vakna ýmsar spurningar um aðgengi og vernd.
Fréttablaðið/Anton Brink

Auður Önnu Magnús­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Land­verndar, segir erfiðara fyrir Ís­lendinga en út­lendinga að sætta sig við þá til­hugsun að greiða fyrir að­gengi að ís­lenskum náttúru­perlum.

„Við viljum ekki þurfa að borga fyrir að sjá okkar eigið land en okkur finnst sjálf­sagt að út­lendingar borgi fyrir það,“ segir Auður. Skemmst er að minnast deilu um náttúru­passa fyrir nokkrum árum í þeim efnum.

Mikil­vægt er að sögn Auðar að miða hug­myndir um um­sjá, gjöld og vernd út frá á­lagi á náttúruna. Á­lagið sem fylgi því að ganga um náttúruna, leggja vegi, byggja ný hótel eða menga með marg­vís­legum hætti sé það sama hvort sem um ræði út­lendinga eða Ís­lendinga. Fjár­magna þurfi aukna náttúru­vernd til að varna á­lagi annað hvort með tekjum frá ferða­mönnunum sjálfum eða inn­heimtu í gegnum fyrir­tæki.

Auður segir að ferða­þjónustan hafi stækkað mjög hratt hér á landi. Þau svæði sem séu undir mestu á­lagi séu á Suður­landi. Mý­vatn, Ás­byrgi og svo­kallaður Demants­hringur séu einnig dæmi um svæði þar sem mjög margir ferða­menn hafi safnast saman á mjög litlu svæði.

„Þá getur skapast sú staða að marg­mennið spilli upp­lifun. Þegar maður kemur til Ís­lands vill maður ekki sjá of margt fólk, það spillir upp­lifuninni ef of margir ferða­menn safnast saman á sama staðnum þegar erindi þeirra er að njóta ein­stæðrar upp­lifunar og kyrrðar,“ segir Auður.

Óskar Magnús­son, eig­andi Kersins, segir um for­sögu þess að hann og fé­lagar hans hafi keypt Kerið og hafið gjald­töku, að fyrri eig­endur hafi gefist upp á að halda staðnum í sæmi­legu á­sig­komu­lagi vegna á­gangs ferða­manna. Hann hafi heyrt í fréttum að ríkið ætti for­kaups­rétt en slitnað hafi upp úr við­ræðum. Tvær á­stæður hafi verið að baki þeirri á­kvörðun að kaupa Kerið. Annars vegar á­hugi hans sjálfs og fé­laga á náttúru­vernd. Hins vegar hafi fjár­festunum þótt gaman að eiga svo ein­stakt fyrir­brigði á heim­vísu.

Ef náttúruvernd er í fyrsta sæti eru einstaklingar fullt eins hæfir að sinna viðkvæmum svæðum og ríkið, að sögn Óskar Magnússonar.

Óskar gekk til samninga, út­búið var stæði fyrir 16 bíla og hópurinn gerði göngu­stíg. Um­ferðin jókst sí­fellt og fyrr en varði var heill her af rútum farinn að leggja við Kerið. Við tóku ýmsar erjur, ekki síst við rútu­fyrir­tæki, enda varð um­ferðin meiri en inn­viðir og að­stæður þoldu að sögn Óskars. Þegar stóru hvörfin urðu og bíla­leigum hafði fjölgað úr 10 í 130 segir Óskar að við­bragðs hafi verið þörf.

„Það var allt komið í vit­leysu og ekki annað að gera en hefja gjald­töku. Hún hefur verið síðan.“

Óskar segir að með gjald­tökunni hafi verið hægt að byggja upp, sem dæmi, fal­legar tröppur úr ís­lensku lerki og pall úr bryggju­viði. „Við eyddum tugum milljóna í þetta og þegar fólk sá að við vorum ekki bara í þessu af græðgi hljóðnuðu ó­á­nægju­­raddirnar.“

Spurður hvort Óskar telji rétt­lætan­legt að taka upp komu­gjald eða bíla­stæða­gjald á stöðum líkt og í Fjaðrár­gljúfri, segir hann að margar náttúru­perlur sem Um­hverfis­stofnun hafi um­sjá með séu í raun í ó­lestri. „Ég tel að það sé marg­falt betra að raun­veru­legir eig­endur standi að svona rekstri.“

Óskar segir skilnings­leysi ríkja gagn­vart því að linnu­lausa vinnu þurfi til að við­halda náttúru­perlu svo vel sé. „Um­hverfis­stofnun hefur hvorki burði né peninga til að sinna þeim stöðum sem stofnuninni er ætlað að sinna.“ Sem dæmi nefnir Óskar að í gær hafi hann verið með tvo bændur í vinnu við að flytja rauða­möl við Kerið.

„Það er fagnaðar­efni ef ein­staklingar treysta sér til að standa í svona fram­taki. Þeir mega vel græða á því ef þeir passa að láta náttúru­verndina ganga fyrir,“ segir Óskar.

Spurður hvort freistni­vandi geti skapast hjá einka­aðilum, að opna fyrir um­ferð fleiri gesta en við­kvæm svæði þoli, svarar Óskar að þrátt fyrir gjald­tökuna hafi hann þvert á móti mætt mikilli að­sókn með því að taka upp að­gangs­stýringu. Marg­menni eyði­leggi upp­lifun ferða­manna. Sú tíð sé handan við hornið að ferða­menn þurfi að kaupa sér miða að ís­lenskri náttúru með fyrir­vara í gegnum inter­netið.

Góður hagnaður var af Kerinu fyrir Co­vid. Árið 2017 nam hagnaður Ker­fé­lagsins 60 milljónum, en tekjurnar voru þá 113 milljónir króna.

Margir vænta gjaldtöku í Fjaðrárgljúfri eftir eigendaskipti.
Fréttablaðið/Anton Brink