Ein af mörgum spurningum sem Ísland stendur frammi fyrir vegna vaxandi uppgangs í ferðaþjónustu er hvaðan aukið fjármagn til verndunar viðkvæmra staða skuli koma og hvort von sé á aukinni aðgangsstýringu að náttúruperlum. Óskar Magnússon landeigandi segir að sá tími gæti verið handan við hornið að ferðamenn þurfi með fyrirvara að kaupa aðgang að náttúruperlum.
Einn helsti segullinn á að útlendingar streyma til landsins er ósk um kyrrð og frið. Margir vilja upplifa þau forréttindi að dvelja í fámenni á einstökum og ósnortnum stöðum að því er rannsóknir sýna. Á sama tíma stefnir í metfjölda ferðamanna, gjarnan á ferð í viðkvæmri náttúru landsins.
Isavia birti í gær farþegaspá sem gerir ráð fyrir 5,7 milljónum ferðamanna um Keflavíkurflugvöll í ár. Spáin hefur á nokkrum vikum hækkað um rúmlega milljón ferðamenn. Má búast við að viðkvæmar náttúruperlur verði fyrir auknu hnjaski með vaxandi umferð.
Frétt Fréttablaðsins um söluna á Fjaðrárgljúfri hefur vakið athygli og hefur blaðið rætt við heimamenn sem telja að einn hvati kaupanna kunni að vera fyrirætlun um gjaldtöku. Umhverfisstofnun neyddist til að loka gljúfrinu vegna ágangs ferðamanna um tíma þegar umferð stórjókst í kjölfar þess að poppstjarnan Justin Bieber heimsótti gljúfrið. Margir gagnrýndu þá ákvörðun á sínum tíma.
Færst hefur í vöxt að ferðamenn þurfi að greiða sérstaklega fyrir aðgang að áhugaverðum stöðum. Ríkið braut sjálft blað með því að taka upp gjaldtöku við bílastæðið á Þingvöllum. Dæmi um aðra gjaldtökustaði eru við fossinn Faxa, við Helgafell skammt frá Stykkishólmi og Seljalandsfoss. Þá bjóða sumar gjaldskyldar heimsóknir upp á leiðsögn, svo sem í Raufarhólshelli.

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir erfiðara fyrir Íslendinga en útlendinga að sætta sig við þá tilhugsun að greiða fyrir aðgengi að íslenskum náttúruperlum.
„Við viljum ekki þurfa að borga fyrir að sjá okkar eigið land en okkur finnst sjálfsagt að útlendingar borgi fyrir það,“ segir Auður. Skemmst er að minnast deilu um náttúrupassa fyrir nokkrum árum í þeim efnum.
Mikilvægt er að sögn Auðar að miða hugmyndir um umsjá, gjöld og vernd út frá álagi á náttúruna. Álagið sem fylgi því að ganga um náttúruna, leggja vegi, byggja ný hótel eða menga með margvíslegum hætti sé það sama hvort sem um ræði útlendinga eða Íslendinga. Fjármagna þurfi aukna náttúruvernd til að varna álagi annað hvort með tekjum frá ferðamönnunum sjálfum eða innheimtu í gegnum fyrirtæki.
Auður segir að ferðaþjónustan hafi stækkað mjög hratt hér á landi. Þau svæði sem séu undir mestu álagi séu á Suðurlandi. Mývatn, Ásbyrgi og svokallaður Demantshringur séu einnig dæmi um svæði þar sem mjög margir ferðamenn hafi safnast saman á mjög litlu svæði.
„Þá getur skapast sú staða að margmennið spilli upplifun. Þegar maður kemur til Íslands vill maður ekki sjá of margt fólk, það spillir upplifuninni ef of margir ferðamenn safnast saman á sama staðnum þegar erindi þeirra er að njóta einstæðrar upplifunar og kyrrðar,“ segir Auður.
Óskar Magnússon, eigandi Kersins, segir um forsögu þess að hann og félagar hans hafi keypt Kerið og hafið gjaldtöku, að fyrri eigendur hafi gefist upp á að halda staðnum í sæmilegu ásigkomulagi vegna ágangs ferðamanna. Hann hafi heyrt í fréttum að ríkið ætti forkaupsrétt en slitnað hafi upp úr viðræðum. Tvær ástæður hafi verið að baki þeirri ákvörðun að kaupa Kerið. Annars vegar áhugi hans sjálfs og félaga á náttúruvernd. Hins vegar hafi fjárfestunum þótt gaman að eiga svo einstakt fyrirbrigði á heimvísu.

Óskar gekk til samninga, útbúið var stæði fyrir 16 bíla og hópurinn gerði göngustíg. Umferðin jókst sífellt og fyrr en varði var heill her af rútum farinn að leggja við Kerið. Við tóku ýmsar erjur, ekki síst við rútufyrirtæki, enda varð umferðin meiri en innviðir og aðstæður þoldu að sögn Óskars. Þegar stóru hvörfin urðu og bílaleigum hafði fjölgað úr 10 í 130 segir Óskar að viðbragðs hafi verið þörf.
„Það var allt komið í vitleysu og ekki annað að gera en hefja gjaldtöku. Hún hefur verið síðan.“
Óskar segir að með gjaldtökunni hafi verið hægt að byggja upp, sem dæmi, fallegar tröppur úr íslensku lerki og pall úr bryggjuviði. „Við eyddum tugum milljóna í þetta og þegar fólk sá að við vorum ekki bara í þessu af græðgi hljóðnuðu óánægjuraddirnar.“
Spurður hvort Óskar telji réttlætanlegt að taka upp komugjald eða bílastæðagjald á stöðum líkt og í Fjaðrárgljúfri, segir hann að margar náttúruperlur sem Umhverfisstofnun hafi umsjá með séu í raun í ólestri. „Ég tel að það sé margfalt betra að raunverulegir eigendur standi að svona rekstri.“
Óskar segir skilningsleysi ríkja gagnvart því að linnulausa vinnu þurfi til að viðhalda náttúruperlu svo vel sé. „Umhverfisstofnun hefur hvorki burði né peninga til að sinna þeim stöðum sem stofnuninni er ætlað að sinna.“ Sem dæmi nefnir Óskar að í gær hafi hann verið með tvo bændur í vinnu við að flytja rauðamöl við Kerið.
„Það er fagnaðarefni ef einstaklingar treysta sér til að standa í svona framtaki. Þeir mega vel græða á því ef þeir passa að láta náttúruverndina ganga fyrir,“ segir Óskar.
Spurður hvort freistnivandi geti skapast hjá einkaaðilum, að opna fyrir umferð fleiri gesta en viðkvæm svæði þoli, svarar Óskar að þrátt fyrir gjaldtökuna hafi hann þvert á móti mætt mikilli aðsókn með því að taka upp aðgangsstýringu. Margmenni eyðileggi upplifun ferðamanna. Sú tíð sé handan við hornið að ferðamenn þurfi að kaupa sér miða að íslenskri náttúru með fyrirvara í gegnum internetið.
Góður hagnaður var af Kerinu fyrir Covid. Árið 2017 nam hagnaður Kerfélagsins 60 milljónum, en tekjurnar voru þá 113 milljónir króna.
