Utanríkisráðuneytið hefur farið fram á að langur viðlegukantur fyrir NATO verði reistur norðan megin í Finnafirði í Langanesbyggð. Kanturinn yrði við bæinn Gunnólfsvík. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Tilgangur aukinna umsvifa er meðal annars að birgja upp skip á vegum NATO og hvíla áhafnir. Til greina kemur að aðstaða yrði fyrir birgðaskip frá NATO. Rætt hefur verið um að Landhelgisgæslan fengi aðstöðu. Ríkið er fyrir með svæði á leigu við Gunnólfsvík.

Heimildir Fréttablaðsins segja að engin skrifleg gögn séu til um þessar þreifingar. Óformlegt erindi hafi þó borist sveitarstjórn Langanesbyggðar frá utanríkisráðuneytinu. Mál séu í vinnslu bak við tjöldin.

Björn S. Lárusson, nýráðinn sveitarstjóri í Langanesbyggð, sagðist ekki geta tjáð sig um málið. Hann tekur ekki til starfa fyrr en 1. september.

Ekki fengust svör frá utanríkisráðuneytinu við fyrirspurnum Fréttablaðsins.

Viðlegukanturinn bætist við aðrar hugmyndir um nýtingu lands í Finnafirði. Fyrir nokkrum árum var undirrituð viljayfirlýsing um stórskipahöfn. Lyktir þess máls hafa ekki orðið að veruleika.

Drög að frumvarpi hafa verið kynnt til laga um að mörk núverandi öryggissvæðis við Gunnólfsvíkurfjall verði færð út.